152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[16:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eðlilega vildu Samtökin '78 gera betur, sagði hæstv. ráðherra. Þetta er lína sem við erum farin að heyra æ oftar þegar ekki er brugðist við athugasemdum hagsmunasamtaka, eins og það sé einhvern veginn óeðlilegt að verða við öllum þeim góðu hugmyndum sem fram kunna að koma.

Ég talaði út frá fimm punktum sem eru fremstir í umsögn Samtakanna '78 eins og hún birtist á samráðsgátt stjórnvalda. Ég er alveg tilbúinn að láta liggja milli hluta að sú ríkisstjórn sem nú situr geti ekki náð saman um réttindi fyrir hinsegin umsækjendur um alþjóðlega vernd vegna þess að þannig er hún einfaldlega innréttuð. En hvað með 2. punktinn þarna, að bæta úr vanfjármögnun trans teymanna á Landspítalanum? Það er engin heimtufrekja í Samtökunum '78 að vilja gera betur þarna. Hvað með að flýta úttekt og úrbótum á aðgengi trans fólks að vinnustöðum, sundstöðum og íþróttamannvirkjum, sem samkvæmt aðgerðaáætluninni á að gera á árabilinu 2022, 2023 og 2024, en samkvæmt lögum um kynrænt sjálfræði átti að gera fyrir einu ári? Það er ekki heimtufrekja heldur að það sé bara farið að lögum. Nei, það stóð í félagsmálaráðherra, þeim síðasta, að gera úrbætur á reglugerð um hollustuhætti og mengunarvarnir til þess að vinnustaðir gætu farið að bjóða upp á kynhlutlausa salernisaðstöðu. Það var bara pólitísk þvermóðska í því ráðuneyti sem stóð í vegi fyrir þeim úrbótum, sem nú horfir til betri vegar. (Forseti hringir.) En eðlilega vildu Samtökin '78 gera betur (Forseti hringir.) vegna þess að það var einfaldlega ekki verið að gera nógu vel í þeim skilningi að það var ekki verið að fara eftir lögum.