152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2022--2025.

415. mál
[16:51]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hversu mikið við lengjum þessa umræðu. Ég vil bara ítreka að hér er verið að ljúka því sem varðar kynhlutlaus salerni, innleiðingu ákvæða laga um kynrænt sjálfræði. Við þekkjum mætavel að það getur tekið tíma að innleiða slíkt. Ég hefði kosið að það gengi hraðar, það er ekkert launungarmál. Hér er verið að leggja áherslu á það og ég hefði talið að hv. þingmaður ætti að vera nokkuð sáttur við það.

Ég vil líka nefna að við getum ekki tekið þessa áætlun úr samhengi við annað og ég fór yfir ekki bara lögin um kynrænt sjálfræði heldur líka lögin um jafna stöðu á vinnumarkaði, en ekki síður frumvarpið um jafna meðferð utan vinnumarkaðar sem er til meðferðar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég vona svo sannarlega að nefndin muni afgreiða það frá sér sem allra fyrst því að það eru líka gríðarlega mikil réttindamál. Og af því hv. þingmenn lýsa miklum áhuga á að ná auknum árangri í baráttunni fyrir hinsegin réttindum þá vona ég svo sannarlega að þingmennirnir sem eru í hv. allsherjar- og menntamálanefnd ljúki því að afgreiða það mál því að ég veit að hinsegin samfélagið bíður eftir afgreiðslu þess hér á Alþingi.