152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

eignarráð og nýting fasteigna.

416. mál
[16:52]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er liður í þeirri heildarendurskoðun á lögum og reglum um eignarráð, ráðstöfun og nýtingu fasteigna, með áherslu á land og landgæði, sem er fjallað um í stjórnarsáttmála. Með frumvarpinu er haldið áfram á sömu braut og var mörkuð með setningu laga nr. 85/2020, þegar Alþingi samþykkti frumvarp mitt um að settar yrðu í lög tilteknar heimildir til að koma í veg fyrir samþjöppun lands á of fáar hendur. Fólu þær breytingar í sér breytingar á ýmsum lögum sem varða eignarráð og nýtingu fasteigna, tóku m.a. á aðilum utan Evrópska efnahagssvæðisins og mæltu fyrir um stofnun sérstakrar landeignaskrár. Hv. þingmenn sem hafa áhuga á því hvernig gengur að uppfylla lög spyrja kannski hvernig gangi að koma þessari landeignaskrá á koppinn og því get ég svarað strax, það er unnið að henni hörðum höndum en það mun taka tíma og fjármagn. Fjármagn hefur verið tryggt í þetta verkefni en þetta tekur líka tíma, og síðan er það ráðstöfun landeigna sem ég vitnaði hér til og aukið gagnsæi og fleira.

Í þessu frumvarpi felst að gerðar verði breytingar á fjórum lagabálkum; lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, jarðalögum, nr. 81/2004, lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, og lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 16/1966. Ég ætla núna að fara stuttlega yfir meginatriði þessara breytinga.

Hér er lagt til að lög um menningarminjar taki þeim breytingum að til staðar verði forkaupsréttur ríkissjóðs að landi þar sem friðlýstar menningarminjar er að finna. Markmiðið er að ríkið eigi tækifæri á að festa kaup á þeim eignum sem rétt er talið að séu í almannaeigu, á grundvelli sjónarmiða um verndun menningararfs þjóðarinnar, til að tryggja aðgengi, nýtingu og uppbyggingu innviða á slíkum svæðum. Til samanburðar má vísa í ákvæði náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, um forkaupsrétt ríkissjóðs að jörðum og öðrum landareignum sem eru að hluta eða öllu leyti á náttúruminjaskrá. Þetta eru sambærileg ákvæði og ákvæði náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, þar sem tryggður var forkaupsréttur ríkissjóðs á jörðum og öðrum landareignir sem er að hluta eða öllu leyti á náttúruminjaskrá. Við leggjum því í raun til að svipaður réttur eigi við um náttúruminjar og menningarminjar eða jarðir þar sem slíkt er að finna.

Lagt er til að í jarðalög, nr. 81/2004, verði sett ítarlegri ákvæði um sameign á landi sem fellur undir gildissvið laganna. Hv. þingmenn sem hafa ferðast um landið þekkja mætavel og hafa heyrt í mörgum íbúum um þau margvíslegu vandkvæði sem fylgja því þegar land er í sameign margra eigenda, svo sem varðandi ákvörðunartöku og fyrirsvar. Frumvarpið felur í meginatriðum í sér að lögfestar verði óskráðar réttarreglur um sérstaka sameign auk ítarlegri reglna sem einkum tækju mið af lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994, sem hv. þingmenn þekkja. Þau eru eini heildstæði lagabálkurinn sem geymir réttarreglur um sameign á fasteignum. Þess ber að geta að jarðalög ná til mikils hluta lands utan þéttbýlis en utan jarðalaga falla hins vegar lóðir, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, svo sem sumarbústaðalóðir. Gert ráð fyrir að þannig dragi úr vandkvæðum við ákvörðunartöku sameigenda og forsendur skapist fyrir betri sátt sameigenda í þeim efnum. Þá stuðli breytingar á ákvæðum um fyrirsvar að því að auðveldara verði fyrir sveitarfélög og aðra aðila, svo sem Umhverfisstofnun, að beina erindum til sameigenda og eiga í samskiptum við þá vegna eignarinnar. Þau sem muna þá tíð áður en lögin um fjöleignarhús voru sett þekkja það hversu gríðarlega mikilvæg réttarbót það var þegar sett voru ákvæði um það hvernig skyldi höndla með sameign í fjöleignarhúsum, þetta þekkjum við sem búum í fjöleignarhúsum. Þetta hefur gert alla umsýslu sameigna miklu einfaldari þannig að við drögum lærdóm af þessari löggjöf og heimfærum hana í raun upp á landareignir með þessum hætti.

Í lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, verði kveðið heildstætt á um afmörkun fasteigna innan og utan þéttbýlis, þ.e. merki landsvæða og lóða af öllum stærðum og gerðum. Hér erum við að tala um landamerkin. Fjallað er um merkjalýsingar eigenda, skyldu til að leita aðstoðar fagaðila við gagnaöflun og mælingar og hlutverk sýslumanna við úrlausn ágreinings. Farvegur skráningar verði með þessu einn og hinn sami án tillits til þess um hvaða tegund skjals ræðir, svo sem merkjalýsingu í heild eða að hluta, sátt eða dóm. Lög um landamerki o.fl., nr. 41/1919, sem taka til jarða og tiltekinna tegunda fasteigna utan kaupstaða og löggiltra kauptúna, sem eru að uppistöðu til frá árinu 1919, verði felld úr gildi.

Af núverandi réttarástandi leiðir að mikið ósamræmi er í gagnaskilum skráningaraðila og ágreiningsmál fara mörg hver fyrir dómstóla án þess þó að niðurstaða fáist fyrir deiluaðila. Gildandi löggjöf veitir ekki fullnægjandi leiðbeiningar og framkvæmd sýslumanna og sveitarfélaga er ekki samræmd eins og staðan er núna. Nægir í því sambandi að nefna mælingar og framsetningu þeirra. Sýslumenn hafa fremur óljóst hlutverk samkvæmt landamerkjalögum og engin heimild er til gjaldtöku fyrir þjónustu þeirra. Gildistaka frumvarpsins mun því til framtíðar grundvalla heildstæðan farveg mála af þessu tagi, veita betri yfirsýn yfir umfang og eignarhald fasteigna og skapa þannig betri forsendur til skipulegrar landnýtingar. Það er auðvitað grunnstefið í þessu frumvarpi, sem og í því fyrra, að hið opinbera hafi betri yfirsýn yfir jarðir og land, að það séu skýrar leikreglur um jarðir og landareignir og að það séu heimildir fyrir hið opinbera til að skipuleggja landið með skynsamlegum hætti.

Með lögum nr. 85/2020, sem ég nefndi hér áðan, voru gerðar breytingar á lögum um skráningu og þar var kveðið skýrt á um landeignaskrána, sem er skráningar- og upplýsingakerfi sem á m.a. að geyma upplýsingar um eignamörk lands á samræmdum kortagrunni. Þar sem ég nefndi að þessu verkefni væri ekki lokið þá finnst mér rétt að fara aðeins yfir það. Í febrúar 2022 höfðu u.þ.b. 26% jarða verið afmörkuð í landeignaskrá en fyrir hendi er hins vegar vísir að afmörkun á rúm­lega 66% allra landeigna, sem flestar eru lóðir og þá helst í þéttbýli. Skráin er hýst hjá Þjóðskrá Íslands, hún er skráarhaldari, og það er gert ráð fyrir að hún áætli stærð og eignamörk lands þegar upplýsingar skortir en gefi hlutaðeigandi áður kost á því að bæta úr ef það liggur ekki fyrir. Það er ljóst að hér er um fjölda tilvika að ræða og mikið verk að vinna. Áætlun Þjóðskrár byggist á mismunandi heimildum, hún hefur þann tilgang að þjóna stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og er á sviði opinbers réttar. Hún hefur hins vegar ekki áhrif á hvar merki teljast liggja með réttu, svo sem ef það er óljóst eða umdeilt og til samkomulags eða dóms kemur, eða hver telst réttur eigandi. Þar erum við komin inn á svið einkaréttarins. Heimildir sem stafa frá rétthöfum sjálfum eru hinar endanlegu, enda fullnægi þær skilyrðum laga, og ryðja því áætlun Þjóðskrár út úr landeignaskrá að sama skapi. Það þarf að gera skýran greinarmun á þessu.

Þörf er á að skapa heildstæðan og skýran farveg fyrir skráningu landamerkja sem er bindandi að einkarétti og það er viðfangsefni þessa frumvarps. Markmiðið er að landeigendur geti þá sjálfir uppfært landamerki sín með nútímalegum hætti. Þá gerist þess ekki þörf fyrir opinberan aðila að slá á, í raun og veru, landamerki og áætla þau.

Ákvæði skipulagslaga hafa leitt til þess að landeigendur hafa að kröfu sveitarfélags þurft að láta vinna svokölluð mæliblöð, einkum í tengslum við skiptingu lands og breytingar á merkjum. Almennt hefur verið leitað til fagaðila um gerð mæliblaða. Frumvarp þetta felur í sér samræmingu á vinnubrögðum slíkra aðila. Það kallar á að aflað sé leyfis, samanber einnig ákvæði um námskeið og prófraun, en ekki er gert ráð fyrir að af því muni hljótast umtalsverður kostnaður fyrir hlutaðeigandi.

Í lögunum sem við samþykktum hér árið 2020 var fjallað um rétt erlendra ríkisborgara frá ríkjum utan EES sem hafa áhuga á að eignast hér fasteign. Þar voru sett tiltölulega stíf skilyrði fyrir þeim réttindum þannig að í ljósi reynslunnar frá árinu 2020 er lagt til að það verði lítillega slakað á skilyrðinu um sterk tengsl við Ísland. Heimildin er bundin við tvær tegundir fasteigna, skráð íbúðarhúsnæði á leigulóð í þéttbýli eða frístundahús á leigulóð á skipulögðu frístundasvæði. Jafnframt verði kveðið á um að þegar í hlut eiga lögaðilar sem hyggjast kaupa fasteign hér á landi — og þá er ég að tala um lögaðila, ekki einstaklinga — verði þeir ekki einungis að hafa staðfestu í ríki sem lögin tilgreina, heldur einnig að vera undir yfirráðum einstaklinga eða lögaðila frá viðkomandi ríkjum. Þarna erum við að reyna að koma í veg fyrir það að aðilar frá öðrum ríkjum, utan EES, geti sniðgengið skilyrði laganna. Við erum að koma í veg fyrir að það sé svindlað á þessu, bara svo það sé sagt skýrt, Í frumvarpinu felst með öðrum orðum að lögaðilar innan EES sem eru undir yfirráðum annarra en EES-aðila þurfi að óska eftir leyfi dómsmálaráðherra til að kaupa fasteign hér á landi.

Frumvarpið sem hér er lagt fram er afrakstur af vinnu stýrihóps um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir, sem forsætisráðherra skipaði í júní 2020 og skilaði af sér frumvarpsdrögum og skýrslu sem var birt í maí 2021. Það er sú skýrsla sem er grunnurinn að þessu frumvarpi. Þar áttu sæti fulltrúar sex ráðuneyta, forsætisráðuneytis, atvinnuvegaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Enn fremur sátu þar fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Byggðastofnun, Skattinum, Skipulagsstofnun og Þjóðskrá Íslands, auk tveggja óháðra sérfræðinga sem unnu þetta frumvarp með okkur.

Með tilliti til þess að þær breytingar sem III. kafli frumvarpsins, um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, þarfnast nokkurs undirbúnings er lagt til að gildistími á þeim kafla sé 1. janúar 2024, en að öðru leyti er gert ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi þegar þau hafa verið afgreidd.

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt hér. Ég hef gert grein fyrir meginatriðunum. Sum þessara atriða er alltæknileg og ég þykist vita að hv. allsherjar- og menntamálanefnd, sem fær þetta frumvarp til umfjöllunar, muni gefa sér tíma til að kafa ofan í þau einstöku atriði. Ég lýk máli mínu hér á að minna á þá ágætu skýrslu sem ég vísaði í áðan, sem var birt í maí, þar sem grunnur var í raun og veru lagður að þeim mikilvægu breytingum sem þarf að gera til að við öðlumst yfirsýn yfir land á Íslandi og til þess að stjórnvöld geti í senn rekið skynsamlega landnýtingarstefnu og axlað ábyrgð sína á því að vera yfirvald í málefnum sem lúta landnotkun og jarðamálum. Það verður að segjast eins og er, eins og kom svo sem fram þegar ég mælti fyrir hinu fyrra frumvarpi 2020, að þessi mál hafa verið bundin allt of lausum hnútum. Hér hefur ekki verið nægjanlega skýr rammi. Ég vonast til að þetta frumvarp verði afgreitt eftir vandaða umfjöllun í nefnd og verði hluti af því að byggja skýran ramma um eina mikilvægustu auðlind sem við eigum sem þjóð sem er auðvitað landið sjálft. Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins hér og legg til að því verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.