152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

þolendamiðuð heildarendurskoðun hegningarlaga.

207. mál
[18:48]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að óska hv. þm. Lenyu Rún Taha Karim til hamingju með sitt fyrsta þingmál. Það er sannarlega heiður að fá að vera með hv. þingmanni sem flutningsmaður á þessari þingsályktunartillögu og sérstaklega ánægjulegt að bæði hv. þingmaður og ég völdum að taka réttindi þolenda sem okkar fókus, okkar baráttumál þegar kemur að því að flytja mál hér inni. Það þarf ekki að segja við neinn sem hefur hlustað á umræðuna sem hefur verið í samfélaginu undanfarin ár að réttindi þolenda þarf að bæta og ég tel að þessi þingsályktunartillaga sé góð yfirsýn yfir það hvar þurfi að taka til hendinni og styð hana því að fullu því ég trúi þolendum og ég stend með þolendum.