152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

áfengislög.

334. mál
[18:53]
Horfa

Flm. (Hildur Sverrisdóttir) (S):

Frú forseti. Ég legg hér fram frumvarp þar sem lagðar eru til breytingar á lögum um netverslun með áfengi. Meðflutningsmenn frumvarpsins eru Óli Björn Kárason, Bryndís Haraldsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Berglind Ósk Guðmundsdóttir.

Frumvarpið felur ekki í sér stórkostlegar breytingar á fyrirkomulagi áfengissölu á Íslandi. Einhverjir gætu jafnvel spurt hvort á ferðinni sé einhvers konar málamyndafrumvarp til þess eins að veifa fánum frelsisins án þess þó að gefa sölu áfengis frjálsa, eins og mörgum þykir sjálfsagt, mér þar með talinni. Frumvarpið er þó eltstvissulega gott skref í frelsisátt en felur líka í sér mikilvægar breytingar í jafnræðisátt, bæði til að jafna hlut innlendra framleiðenda á við erlenda sem og jafnræði fólks til að nálgast vöruna. Með frumvarpinu yrði einnig undirstrikað lögmæti innlendrar netverslunar sem hefur verið óvissu háð.

Netverslun með áfengi hefur verið leyfileg um langt skeið í formi heimildar Íslendinga til að kaupa áfengi frá útlöndum. Þetta fyrirkomulag hefur þýtt að fólk hefur getað pantað sér bjór heim að dyrum frá erlendum netverslunum vandkvæðalaust, en ekki innlendum. Íslenska bjórinn er bannað að selja annars staðar en í áfengisverslunum ríkisins nema hann sé fluttur fyrst út svo hægt sé að panta hann frá útlöndum. Um þann punkt ríkir í öllu falli óásættanleg lagaleg óvissa sem verður að skýra.

Þetta þýðir augljósan aðstöðumun erlendum framleiðendum í hag á kostnað íslenskra brugghúsa og er auðvitað leikhús einhvers konar fáránleika sem erfitt að gera sér í hugarlund að hafi gerst vísvitandi. Íslensk bjór- og vínframleiðsla er búgrein sem hefur eflst mjög síðustu ár, ekki síst vegna ástríðu og áhuga þeirra sem að standa, þrátt fyrir stöðugt stapp við reglugerðir og hömlur sem takmarka möguleika þeirra til að selja sínar ágætu vörur. Við þetta bætist svo sú augljósa staðreynd að það er engum á Íslandi sérstakur greiði gerður með því að erlendar netverslanir njóti reksturs og atvinnusköpunar og borgi skatta í öðrum ríkjum frekar en á Íslandi.

Hitt er svo ekki síður mikilvægt að frumvarpið felur í sér stóraukið jafnræði þeim til handa sem ekki geta elst við útibúastefnu Vínbúðarinnar, sem vel að merkja hefur ekki séð ástæðu til að hefja heimsendingar úr sinni netverslun. Frumvarpið er landsbyggðarmál fyrir þau sem þurfa að aka tugi kílómetra til að komast í vínbúð. Það snýst um sjálfbærni hverfa fyrir þau sem ekki eiga bíla og þurfa að sækja áfengið í bílastæðabúðir sem komið er fyrir í útjöðrum hverfa og bæja. Það er réttindamál fyrir öll þau sem ekki eiga heimangengt, t.d. vegna veikinda eða fötlunar, en geta pantað langflestar aðrar vörur á netinu.

Þær raddir heyrast að öll frumvörp sem auka frelsi á nokkurn hátt í áfengismálum hvetji til aukinnar neyslu. Þó er það svo að samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu hefur fjölgun sölustaða Vínbúðarinnar og fjölgun vínveitingaleyfa undanfarin ár ekki skilað sér í samsvarandi aukningu á áfengisneyslu. Tilhugsunin um aukið frelsi virðist oft vekja fólki ugg en óttinn er þó yfirleitt ástæðulaus. Þær eru a.m.k. fáar raddirnar sem krefjast afnáms bjórlaganna sem heimiluðu sölu bjórs fyrir rúmum þrjátíu árum. Það sem meira er, ef tilgangurinn er að takmarka áfengisneyslu þá á það að ganga jafnt yfir alla og ekki vera háð lífsstíl, búsetu eða samfélagslegri stöðu. Þótt frelsismálin séu mér jafnan hugleikin þá er þetta mál í mínum huga ekki síður jafnræðis- og réttlætismál til hagsbóta fyrir neytendur. Mál sem ég vona að hljóti góðan hljómgrunn og brautargengi hér í þingsal.

Að öðru leyti vísa ég til greinargerðar frumvarpsins og að því sögðu legg ég til að málið fari til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.