152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

áfengislög.

334. mál
[19:04]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Maður á jú að þakka það sem gott er, óháð því hvaðan það kemur og hversu oft búið er að setja það fram í mismunandi myndum. Ég held reyndar að það sé kannski ekki oft búið að leggja fram frumvarp um vefverslanir með áfengi, kannski nokkrum sinnum. En ég held að það sé mjög rétt, sem hér kom fram áðan, að eflaust er meiri hluti á þingi fyrir þessu máli, fyrir því að opna meira á verslun með áfengi. En sú skipting fer kannski ekki akkúrat eftir því hvort fólk er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég hef búið í mörgum löndum þar sem hafa verið mismunandi aðferðir við sölu á áfengi. Ég bjó t.d. í fylki í Bandaríkjunum þegar sala á áfengi var gefin frjáls þar og reynslan þar var mjög einföld. Það breyttist ekki neitt. Neyslan breyttist ekki neitt, hún var alveg sú sama. Munurinn var sá að það voru ekki lengur neinar fylkis- eða ríkisverslanir með áfengi heldur var það komið inn í matvöruverslanirnar og það breytti ekkert hegðun fólks.

Það eina sem ég myndi leggja til við hv. allsherjar- og menntamálanefnd er að íhuga það að gera tíu breytingar samtals á þessu frumvarpi og það er að taka orðið „vef“ út alls staðar, gera þetta einfaldlega að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi. Það er mjög einföld breyting. Það eru tíu staðir, ég er búinn að merkja við það í skjalinu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd ef hún vill gera það. Það er líka tiltölulega einfalt fyrir nefndarritara að breyta, nefndasviðið, vegna þess að það er hægt að taka svona orð út á mjög einfaldan hátt. Ég styð það alla vega. Ég veit að ég á örugglega eftir að fá 500 pósta núna frá andstæðingum áfengisverslunar. En mín reynsla er sú, eftir að hafa búið á mörgum stöðum, að þetta muni ekki breyta hegðun fólks og muni ekki breyta drykkju fólks heldur muni þetta einfaldlega gera hlutina einfaldari og þægilegri og ekki eins takmarkandi og þeir eru í dag. Vonandi fáum við að sjá þetta aftur, vonandi án orðsins „vef“.