152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

áfengislög.

334. mál
[19:08]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir þetta frumvarp og um leið taka fram að ég styð þessa hugmynd og ég styð þetta frumvarp. Ég held að það sé kominn tími til að færa áfengisverslanir og það sem viðkemur áfengi og tóbaki inn í nútímann og jafnframt vona ég að þetta sé í síðasta skipti sem við ræðum eitthvað svona hér í þingsal í 1. umr. og að þetta komist eitthvað lengra áfram, svo ég taki undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.

Þessi hugmynd eða þetta frumvarp varðar aðgengi fólks að áfengi og ég held að þetta muni stuðla að auknu aðgengi sem ég tel vera mjög mikilvægt. Það er fínt að byrja hér. Ég hefði viljað sjá áfengi í verslanir yfir höfuð en það ætti þá bara að vera lokamarkmiðið og lokaskrefið vonandi. Ég fagna því líka að við séum að taka þetta í hænuskrefum, kannski er auðveldara fyrir þingið að melta það ef þetta er tekið í svona litlum skrefum. En svo er náttúrlega spurningin, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á áðan, hvort þingflokkar Vinstri grænna og Framsóknarflokksins séu að fara að samþykkja þetta en ég vona innilega að það verði að stuðlað að einhverri sátt innan stjórnarflokkanna út af því að þetta er búið að vera stórt mál núna síðustu — nú er ég ný í pólitík og hef verið að fylgjast með síðustu fjögur til fimm árin en það hefur alltaf verið stór punktur í kosningabaráttunni að nútímavæða áfengissölu þannig að ég bíð bara spennt eftir því hvernig þetta mál muni þróast. Ég vona bara að hv. þingmaður og flutningsmaður finni fyrir stuðningi, hann er alla vega innan þingflokks Pírata, alla vega styð ég það og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson. En satt best að segja veit ég ekki hvernig þetta mun þróast. Þingmenn Pírata eru mjög oft spurðir hvort við séum fylgjandi þessari löggjöf yfir höfuð og spjótum dálítið beint að okkur fyrir að tefja þetta mál í nefndum eða í þingsal en ég vil árétta að það er ekki staðan í dag og við styðjum þetta alla vega tvö hér og ég bara bíð spennt eftir þróuninni og vona að þetta gangi vel.