152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

áfengislög.

334. mál
[19:17]
Horfa

Flm. (Hildur Sverrisdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ræðu. Ég virði það við hv. þingmann að hún kom inn á það að um misskilning gæti verið að ræða. Ég vil undirstrika að vissulega er um einhvers konar misskilning að ræða ef ég hef á einhvern hátt ýjað að því að ég hefði ekki áhuga á að þetta mál kæmi hér inn í þingsal og við myndum heyra í sem flestum þingmönnum. Það er nefnilega alveg þvert á móti og ég er nokkuð viss um að ég kom inn á það áðan. En ég vildi þó alla vega koma og fá að skýra það svo það sé alveg skýrt. Ég tek undir að það væri mjög óskandi að þetta mál kæmist út úr nefnd og við myndum, eins og ég orðaði það áðan, fá þennan lestur á mál sem er búið að vera fast í hjólförum, alls konar kreddu- og ágiskunarumræðu, í allt of langan tíma. Ég held að það væri mjög gagnlegt að sjá hvaða þingmenn myndu styðja það mál. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni, það eru mörg mál sem ég hef séð fara hér í gegn og ekki njóta brautargengis og þau hefðu farið öðruvísi ef ég hefði fengið að ráða, og það sama má eflaust segja um alla þá 63 aðila sem sitja hér í þessum sal.

Mig langar kannski að enda á því að segja að ég vona að það sé enginn misskilningur og ég held að hv. þingmaður myndi ekki vilja sjá þingstörfin öðruvísi en þannig að þingmenn leggi fram þau mál sem þeir hafa trú á. Það er engin fullvissa um það hjá engu okkar um nákvæmlega hver örlög mála verða en auðvitað leggur maður mál fram í þeirri trú og þeirri vissu að það geri samfélaginu gott. Mikið meira getur maður ekki gert. Hefur hv. þingmaður einhverja aðra hugmynd um hvernig þau mál eiga að afgreiðast, svo að ég sé ekki heldur að misskilja hana?