152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

87. mál
[19:45]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig minnir að síðast þegar ég skoðaði hafi tæplega 35% þjóðarinnar verið fylgjandi, 40% á móti og restin hafi viljað skoða hlutina betur. Þannig var staðan fyrir fimm eða sex mánuðum þegar ég skoðaði það. Evrópusambandið er ekki fullkomið samband. Þar erum við með ólíka flokka. Við erum með flokka sem eru lengst til vinstri og lengst til hægri, við erum með popúlíska flokka. Sem betur fer er það að gerast núna að Marine Le Pen og hennar fylgifiskar og Salvini — þetta fólk skammast sín svolítið núna og heldur sig frekar til hlés þegar þeirra helsti stuðningsmaður, Pútín, sem er líka fjárhagslegur stuðningsmaður þeirra, fer fram með þessu mikla alræði og ofbeldi og brýtur alþjóðleg lög.

Við megum heldur ekki gleyma því að í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar, eftir að henni lauk, stofnuðum við Atlantshafsbandalagið. Þá fóru Bandaríkjamenn líka í þessa miklu Marshall-áætlun, fjárhagslegan stuðning við Evrópu sem var í rúst, hún var algerlega í rúst eftir seinni heimsstyrjöldina. Við Íslendingar nutum líka góðs af Marshall-aðstoðinni. Síðan þrýstu Bandaríkjamenn á það að Evrópa tæki svolítið ábyrgð á sinni eigin framtíð og hluti af því var að þrýsta á að Evrópubandalagið yrði stofnað, eins og það hét þá, en það breyttist síðan í Evrópusambandið. Þetta eru tvær hliðar á sama peningnum. Ég hef sagt það oft að þetta séu tvær hliðar á sama peningnum, annars vegar varnarbandalagið NATO og síðan Evrópusambandið, sem á að tryggja efnahagslegt og fjárhagslegt frelsi. Þar sem er efnahagslegur stöðugleiki eru miklar líkur á að friður ríki. Þar sem er efnahagslegur óstöðugleiki og ringulreið, fákeppni, sérhagsmunagæsla, er ófriður. Þetta vissu menn þá og sáu fram á það á sínum tíma að þarna þyrfti að byggja upp. Þarna er grunnurinn sem ég vil tengja við. Það er þess vegna sem við eigum að skoða það rækilega, frú forseti, að sækja um fulla aðild að Evrópusambandinu.