152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

störf þingsins.

[15:41]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Sem formanni allsherjar- og menntamálanefndar fannst mér kannski orðið tímabært að við fjöllum um menntamál í þeirri ágætu nefnd, enda hefur verið nóg að gera á öðrum vettvangi nefndarinnar. Í vikunni fengum við á fund til okkar Hermund Sigmundsson, sem er prófessor og hefur verið óþreytandi í að tala um íslenskt menntakerfi og þau gígantísku tækifæri sem við eigum þar til úrbóta. Áskoranir í íslensku menntakerfi eru kannski ekki síst til komnar vegna þess að það er ekki með öllu ljóst hvort við nýtum réttar forsendur þegar við mælum þær breytur sem skipta máli í íslensku menntakerfi og þær breytur sem við viljum ná fram bætingu á. Ég er hér sérstaklega að vísa í læsi íslenskra ungmenna og læsi íslenskra drengja. Sem móðir þriggja barna hef ég iðulega pirrað mig á því að verið sé að mæla lestrarhraða barnanna minna. Ég velti fyrir mér, þegar verið er að ræða slíka grunnfærni eins og lestur, hvort það er hraðinn eða skilningurinn sem skiptir máli. Í mínum huga er það engin spurning, auðvitað er það skilningurinn en ekki hraðinn.

Ástæðan fyrir því að við fengum Hermund Sigmundsson til okkar á fundinn er ekki síst sú að í síðustu viku hélt Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar ráðstefnu um mikilvægi læsis. Hermundur var einn af fyrirlesurunum, en þeir voru líka fleiri, bæði erlendir og innlendir, og virkilega áhugaverðar niðurstöður sem komu þar fram. Mig langar að fagna sérstaklega þessu framtaki Rannsóknarsetursins, en það er samstarf Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Þetta rannsóknarsetur hefur sett af stað mjög áhugavert verkefni sem er verið að nýta núna í Vestmannaeyjum. Þó að verkefnið hafi bara staðið í örfáa mánuði er ótrúlegt að sjá þann mikla árangur sem þeir geta raunverulega mælt nú þegar.

Virðulegur forseti. Við í allsherjar- og menntamálanefnd munum fylgja þessu máli eftir. Það er nauðsynlegt að bæta lestrarkunnáttu íslenskra barna og til þess að gera það þá hljótum við að vilja styðjast við nýjustu og bestu vísindin í þeim efnum.