152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að hlusta á þingmenn og ef ég skil þetta rétt þá kom álit frá lagaskrifstofunni héðan, frá þinginu, í gær um þetta mál. Ég trúi því ekki að öllu óreyndu að forseti þingsins ætli ekki undanbragðalaust að leita til ráðuneytisins og beina því eindregið til ráðherra að það verði hlustað á þingmenn sem hafa komið hingað upp. Ég bara trúi því ekki. Það er þessi vog sem hann stendur frammi fyrir, framkvæmdarvaldið og löggjafarvaldið, og hann á að vera löggjafarvaldsmegin. Þetta liggur alveg skýrt fyrir. Við erum að biðja um þessi gögn til að geta sinnt vinnu okkar innan allsherjarnefndar og hér innan þingsins. Það er alveg á hreinu hvernig við eigum að vinna þetta og þess vegna trúi ég ekki öðru en að núverandi sitjandi forseti beini því til forsetans Birgis Ármannssonar að hann beiti sér fyrir þingmenn og fyrir þingheim (Forseti hringir.) og fyrir fólk sem er að leita til þingsins um að við fáum þessi gögn til að geta sinnt hlutverki okkar sem við erum búin að skrifa eið að stjórnarskránni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)