152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:52]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Það er virðingarvert að fá hér fram sjónarmið eins hv. stjórnarliða þó að auðvitað sé vöntun á öllum öðrum stjórnarliðum í þessari mikilvægu umræðu um getu þingsins til að standa vörð um eigin hlutverk. Ég hlýt þó að gera athugasemd við það að vera í ríkisstjórn og færa Sjálfstæðisflokknum dómsmálaráðuneytið trekk í trekk og tala svo fyrir mannréttindum og flóttafólki. Það tvennt fer einfaldlega ekki saman. Það liggur alveg fyrir hver stefnan verður þegar Sjálfstæðisflokkurinn fer með dómsmálaráðuneytið. Við höfum bara margra ráðherra reynslu af því. Þeir hafa verið ansi margir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem hafa gegnt þessum málaflokki fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins en stefnan er alltaf sú sama, þar er enga að mannúð að finna og þar er ekki verið að huga að mannréttindum flóttafólks eins og endurtekin framlögn útlendingafrumvarps þessarar ríkisstjórnar sýnir fram á, sem nota bene Vinstri græn hafa samþykkt endurtekið út úr ríkisstjórn og geta ekki skýlt sér á bak við eitthvert annað ráðuneyti í því. (Forseti hringir.) Þetta bara liggur á þeirra borði. Þetta virðist vera þeirra vilji.