152. löggjafarþing — 49. fundur,  9. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:56]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Virðulegur forseti. Það er alveg rétt sem hv. þm. Jódís Skúladóttir segir, hún hefur verið skýr í afstöðu sinni í þessu máli frá fyrsta degi. Mér sýnist að það hafi verið 25. janúar sem við ræddum það sem hv. þingmanni þótti vera glórulaust verklag, óboðlegt, og galin framkvæmd í ráðuneytinu. Ég tek undir hvert orð. Tveim dögum seinna notaði hv. þingmaður frasann að þetta væri með ólíkindum og óboðleg vinnubrögð. Hjartanlega sammála því líka. Það eru samt alveg 40 dagar síðan þetta var og enn erum við á sama stað. Enn er staðan jafn galin, glórulaus og óboðleg og í boði hvers? Jú, í boði dómsmálaráðherra ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Þetta eru nefnilega ekki óskyldir aðilar, ráðherrann sem er valdur að þessum glórulausu vinnubrögðum og flokkurinn sem hv. þingmaður tilheyrir. Það hlýtur (Forseti hringir.) að vera hægt að toga í einhverja spotta innan þessa stjórnarsamstarfs aðra en að mæta hér (Forseti hringir.) og taka undir með okkur í ræðustól.

Ég spyr: Til hvers að vera í ríkisstjórn ef það breytir engu (Forseti hringir.) varðandi það hvernig Jón Gunnarsson kemur fram við Alþingi?

(Forseti (OH): Ég vil minna hv. þingmenn á að ræðutími í fundarstjórn forseta er 1 mínúta.)