152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

skylda Útlendingastofnunar til að afhenda gögn.

[10:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar til þess að þingmenn íhugi aðeins súrrealismann í þessu máli. Þarna er ráðuneyti einfaldlega að segja við þingið: Nei, þið fáið ekki gögn. Þetta á við um öll mál. Þetta er sambærilegt öllum málum þingsins, allri lagasetningu þingsins. Þingið er að vinna í einhverju öðru máli að lagasetningu, við hvaða mál sem er, og segir við ráðuneytið: Við þurfum gögn sem útskýra þetta betur. Þá á ráðuneytið að svara: Að sjálfsögðu, og útvega gögnin, að sjálfsögðu. Þetta er ekkert öðruvísi en neitt annað mál sem viðkemur eftirlitshlutverki þingsins, lagasetningu þingsins, því að þetta snýst einu sinni um að setja lög um ríkisborgararétt, ekkert flóknara en það, lagasetning þingsins. Og það er forkastanlegt að framkvæmdarvaldið ætli einhvern veginn að reyna að snúa út úr því og segja: Nei, þetta varðar ekki eftirlitsskyldu þingsins, þar af leiðandi ætlum við ekki að láta ykkur fá gögnin.