152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

skylda Útlendingastofnunar til að afhenda gögn.

[10:36]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil taka heils hugar undir þau orð sem hér hafa fallið í dag og undanfarna daga í þingsal um þetta mál. Ég myndi gjarnan vilja brýna forseta Alþingis meira til dáða. Ég efast ekki eina einustu mínútu um það að forseti þingsins ber hag þingsins fyrir brjósti og vill veg þess sem mestan. En mér finnst svör forseta hér til okkar vera pínu veik. Það að halda áfram einhverju samtali við ráðuneytið, ráðherrann, við Útlendingastofnun myndi ég ekki flokka sem það að stíga svolítið fast til jarðar. Það er bara einfaldlega þannig að það er verið að hindra þingið í því að geta sinnt sínu hlutverki, sem í þessu tilfelli er það að veita fólki ríkisborgararétt með lögum. Mér finnst að hæstv. forseti Alþingis ætti að upplýsa okkur betur um það hvað fram hefur komið í þessum samtölum og hvort honum finnist ekki full ástæða til að stíga núna fastar til jarðar þegar er algjörlega búið að eyða allri óvissu um að þinginu ber að fá þessi gögn ef kallað er eftir því.