152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

skylda Útlendingastofnunar til að afhenda gögn.

[10:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Enn og aftur stöndum við hér og ræðum þetta mál. Ég verð að viðurkenna að mér finnst býsna langt seilst þegar því er haldið fram hér að um sífelld lögbrot sé að ræða hjá Útlendingastofnun í skjóli ráðherra. Svo að öllum sé það ljóst þá hefur Útlendingastofnun aldrei sagst ekki ætla að afhenda þessi gögn. Þetta snýst ekki um það. Útlendingastofnun er það fyllilega ljóst að henni ber að fara yfir þessar umsóknir og veita okkur umsögn. Þetta snýst um tíma. Það er engu að síður alveg ljóst að tíminn er orðinn allt of langur, þannig er það í mínum huga, og ég vænti þess — við vitum að Útlendingastofnun hefur verið að fara yfir þessar umsóknir og hefur afhent okkur hluta af þessum umsögnum sínum — að þau klári þetta mál hið fyrsta.

Eins og ég sagði hér í gær: Stóra málið er að við horfum til framtíðar. Hvernig viljum við hafa þetta? Það er það sem allsherjar- og menntamálanefnd þarf að leggjast yfir núna. Við þurfum að finna framtíðarfyrirkomulag sem er okkur öllum til sóma.