152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

skylda Útlendingastofnunar til að afhenda gögn.

[10:40]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það var beðið um þessi gögn með hliðsjón af 51. gr. þingskapalaga um að framkvæmdarvaldinu bæri að afhenda gögn innan viku. Það er bara í lögum. Það kom svar: Nei, okkur ber ekki að framfylgja þeim lögum. Það er eitthvað sem varðar eftirlitshlutverk Alþingis en ekki þetta verkefni. Um það snerist minnisblaðið sem við fengum, að jú víst, framkvæmdarvaldinu bæri að afhenda Alþingi gögn skv. 51. gr. í þessu tilviki. Það var það sem ráðuneytið og stofnunin voru að segja: Við viljum ekki afhenda ykkur þessi gögn samkvæmt þingsköpum. Við sögðum: Jú, víst. Og lögfræðiálit þingsins segir: Það er rétt hjá ykkur og rangt hjá ráðherra, rangt hjá Útlendingastofnun. Það á að afhenda gögnin. Þannig að það var víst reynt að koma í veg fyrir að Alþingi fengi þessi gögn. Það er fyrirsláttur að segja: Við ætlum bara að gera það einhvern tímann þegar okkur hentar. Það var reynt að koma í veg fyrir það.