152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

skylda Útlendingastofnunar til að afhenda gögn.

[10:41]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég verð að segja að orð formanns allsherjar- og menntamálanefndar, hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur, ollu mér vonbrigðum hérna áðan. Þetta snýst ekki bara um tíma. Þetta snýst um að það er fólk þarna úti í samfélaginu sem hafði væntingar um það að farið yrði eftir ákveðnu verklagi sem hefur verið viðhaft í mörg ár. Í þessu öllu er að það er einhliða verið að breyta því hvernig þingið hefur starfað og unnið með þessi mál í gegnum tíðina. Þannig að þetta er ekki bara spurning um tíma. Þetta er spurning um einhliða afstöðu ráðuneytis og stofnunar sem valta yfir það hvernig þing hefur unnið þessi mál í gegnum tíðina. Það er fólk af holdi og blóði þarna úti sem hefur væntingar um að þetta verði gert með sama hætti og verið hefur undanfarin ár og jafnvel lengur. Og svo vil ég gjarnan vinsamlegast fara þess á leit við hæstv. forseta Alþingis að hann gefi okkur pínulitla innsýn í það hvers konar svör hann hefur verið að fá við sínum málaleitunum þegar hann hefur haft samskipti við annaðhvort ráðuneytið eða stofnunina út af þessu máli.