152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

skylda Útlendingastofnunar til að afhenda gögn.

[10:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Já, þetta er auðvitað spurning um tíma en það er líka verið að brjóta hér áratugalanga venju. Útlendingastofnun hefur tvisvar sinnum á ári auglýst tímafresti til að senda inn umsóknir um ríkisborgararétt fyrir Alþingi. Það hefur verið 1. október og 1. mars ár hvert, tvisvar á ári. Þetta inngrip inn í venjubundið ferli hjá Alþingi er algerlega ótækt og ég óska eftir því að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, sem líka er formaður allsherjar- og menntamálanefndar, geri ekki lítið úr því þegar framkvæmdarvaldið fer fram með þessum hætti gegn Alþingi. Alþingi er það mikilvæg stofnun og er með lögbundnar skyldur hvað þetta varðar og hefur ekkert val um það. Okkur ber að gera það. Okkur ber þá að taka ákvörðun um, eins og hv. þingmaður segir, að breyta þessari venju en við gerum það ekki með því að vera þvinguð inn í það af framkvæmdarvaldi að áeggjan ráðherra að breyta því. (Forseti hringir.) Það er ekki þannig sem hlutirnir gerast. Ég óska eftir meiri virðingu fyrir störfum Alþingis.