152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

skylda Útlendingastofnunar til að afhenda gögn.

[10:44]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur þykir býsna langt seilst þegar því er haldið fram að um sífelld lögbrot hjá Útlendingastofnun í skjóli ráðherra sé að ræða. Ég er ekki sammála því að það sé of langt seilst en það mætti kannski vera nákvæmara orðalag. Það eru sífellt lögbrot að fyrirskipan ráðherra. Eins og kom fram hér í ræðustól 10. febrúar — við erum náttúrlega búin að vera að ræða þetta mál í næstum tvo mánuði af því að vandinn er búinn að vera viðvarandi þar lengi — þá sagði hæstv. dómsmálaráðherra að hann hefði falið stofnuninni að vinna með þessum hætti. Þvert á áratugahefð í samskiptum Alþingis við stjórnsýsluna í þessum málum fól ráðherra stofnuninni að haga sér svona. Mér finnst, herra forseti, það að eiga eitthvert samtal við nefndina og ráðherra um það hvernig eigi að koma þessu í betra horf dálítið milt á þessum tímapunkti hjá hæstv. forseta, (Forseti hringir.) þegar tveggja mánaða ítrekaður brotavilji ráðherrans er mjög ljós.