152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

varnarsamningurinn við Bandaríkin.

[10:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er algjör grundvallarskylda stjórnvalda hverju sinni að verja öryggi borgaranna. Það þarf reglubundið stöðumat og stjórnvöld þurfa að hafa bæði þor og kjark til að gera það en ekki ýta sjálfkrafa kostum út af borðinu sem geta reynst þjóðinni mikilvægir til að verja landið og tryggja öryggi borgaranna. Ég tók reyndar eftir því að forsætisráðherra taldi með öllu óþarft að tryggja viðveru varnarliðs hér á landi. Gott og vel. Það getur verið að það sé yfirlýsing ætluð til heimabrúks innan VG, en mér þykir verra að ekkert mat á samt að gera á öryggishagsmunum í þessu samhengi, a.m.k. hefur okkur í utanríkismálanefnd ekki verið kynnt það.

Við þurfum að meta þetta og kortleggja hvernig okkar öryggis- og varnarhagsmunum er best borgið, hvort sem það er í gegnum markvisst varnarstarf eða annað alþjóðlegt samstarf sem getur stuðlað að friði og öryggi. Þess vegna höfum við í þingflokki Viðreisnar lagt fram tillögu um alþjóðlegt samstarf í öryggis-, utanríkis- og varnarmálum. Varnarsamningurinn við Bandaríkin er einn af hornsteinum okkar Íslendinga þegar kemur að þjóðaröryggi og hann er frá árinu 1951. Aðstæður eru verulega breyttar. Varnarsamningurinn þarf með ótvíræðum hætti að taka til netárása sem beinast gegn öryggi landsins. Hann þarf líka að taka til mikilvægis órofinna samgangna, innviða og samskipta Íslands við umheiminn á ófriðartímum, eins og birgðaflutninga, sæstrengja eða orkuöryggis. Þetta gerir samningurinn ekki í dag. Hann þarf að geyma skýr ákvæði um verkferla. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Hann þarf að geyma skýr ákvæði um verkferla og ábyrgð á töku ákvarðana, komi til þess að við þurfum að virkja aðstoð Bandaríkjanna samkvæmt samningnum. Það er ekki skýrt í dag. Það ógnar öryggi okkar Íslendinga. Og það er heldur ekki skýrt hversu langur þessi lágmarkstími þarf að vera til að aðstoð berist til landsins.

Þannig að mín spurning til hæstv. ráðherra í þessu ljósi er: Telur forsætisráðherra og formaður þjóðaröryggisráðs ekki ástæðu til þess að taka upp varnarsamninginn við Bandaríkin í þessu ljósi, ekki síst þegar við höfum í huga öryggis- og varnarhagsmuni landsins?