152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

varnarsamningurinn við Bandaríkin.

[10:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að Alþingi allt starfi og vinni samkvæmt hinni samþykktu þjóðaröryggisstefnu. Hv. þingmaður nefnir einn þátt hennar sem er varnarsamningurinn við Bandaríkin. Annar þáttur hennar er aðildin að Atlantshafsbandalaginu en alls er hún í tíu liðum. Mér finnst ástæða til að vekja máls á því, af því að þetta er eðlilega til umræðu núna, að við ræðum hvernig öryggi okkar verður sem best tryggt. Ég vil leyfa mér að segja að á undanförnum fjórum árum hefur á vettvangi þjóðaröryggisráðs verið unnið alveg gríðarlegt starf í því að fylgja eftir öllum þáttum þjóðaröryggisstefnunnar, öllum tíu þáttunum, og yfir það er farið í þessari skýrslu um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar. Það liggur algerlega fyrir að það eru mjög margir þættir sem þarf að hafa í huga þegar við hugum að öryggi borgara okkar. Það er netöryggi, það er fjarskiptaöryggi. Þegar við horfum á þau átök sem nú eru fyrir hendi held ég að við getum algerlega óhikað metið það svo að sú áhætta felist ekki eingöngu í því sem við getum kallað hefðbundna hernaðarlega þætti heldur ekki síður í netöryggismálum, fjarskiptaöryggi og öðrum þeim þáttum sem lúta að því að við tryggjum öryggi mikilvægra innviða og að því hefur verið unnið.

Hv. þingmaður spyr hér um áhættumat og eins og hún þekkir vel var gefið út áhættumat af hálfu þjóðaröryggisráðs 2021. Við erum búin að ákveða á vettvangi þjóðaröryggisráðs að uppfæra það mat með hliðsjón af þessari stöðu til að geta lagt sjálfstætt mat á það hvað er mikilvægast að gera til að bregðast við. Enn fremur liggur fyrir, og það hefur komið fram, að viðbúnaðaráætlanir Atlantshafsbandalagsins fyrir öll svæði bandalagsins, svæðin eru fimm, hafa verið virkjaðar sem þýðir að þar er alls staðar sérstök viðbúnaðaráætlun í gildi og að sjálfsögðu tökum við fullan þátt í því. En næsta skref á vettvangi þjóðaröryggisráðs er að uppfæra þetta mat þannig að við getum lagt sjálfstætt mat á það hvar þörfin er í raun og veru brýnust.