152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

varnarsamningurinn við Bandaríkin.

[10:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég verð nú að segja að þessi spurning kemur mér meira á óvart en mín svör. Mér finnst varasamt hjá hv. þingmanni að vera að sá þeim fræjum hér að varnarsamningurinn standist ekki tímans tönn. Hann er fyrir hendi. Hann hefur verið uppfærður tvisvar sinnum, 2006 og svo 2016, og það er ekki bara mitt mat sem formanns þjóðaröryggisráðs, sem hv. þingmaður vill helst reyna að láta líta tortryggilega út, heldur mat ríkisstjórnarinnar að á þessu sé ekki þörf, þetta sé algerlega skýrt sem og aðildin að Atlantshafsbandalaginu sem einnig er kveðið á um í þjóðaröryggisstefnunni. Ég held því að hér sé hv. þingmaður að grípa til ákveðinna mælskubragða. Ég held að ekki sé ástæða til að grípa til slíkra mælskubragða þegar ástandið í heiminum er jafn alvarlegt og raun ber vitni. Ég held að engin ástæða sé til að koma hér upp og reyna að láta líta svo út að íslensk stjórnvöld séu ekki að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi íslenskra borgara um leið og við leggjum það af mörkum sem við getum til að koma í veg fyrir þær hörmungar sem fólkið í Úkraínu stendur frammi fyrir. Við erum að beita okkur með mannúðaraðstoð og öðrum þáttum.

Herra forseti. Ég held að samstaðan sem hér hefur verið á þingi sé eitthvað sem við ættum að reyna að halda í þegar ástandið er jafn alvarlegt og raun ber vitni.