152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

mótvægisaðgerðir gegn verðhækkunum.

[11:02]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hetjuleg barátta Úkraínumanna fyrir frelsi sínu hefur kallað fram ótrúlega samstöðu vestrænna ríkja gagnvart innrás Rússa. Efnahagsaðgerðir sem beinast að Rússum eru af sögulegum toga. Að sama skapi rennur nú upp fyrir heiminum mikilvægi þessara tveggja landa í heimshagkerfinu enda miklar framleiðsluþjóðir. Efnahagsleg áhrif stríðsins verða mikil og munu dreifast um allan heim. Þær efnahagslegu fórnir sem Íslendingar þurfa að færa eru þó í engu samhengi við fórnir Úkraínumanna fyrir frelsi sínu en staðreyndin er engu að síður sú að högg munu dynja á efnahagnum hér og þau falla ekki jafnt á fólk. Viðkvæmni gagnvart verðlagsbreytingum er mismikil og það hlýtur að vera markmið stjórnvalda að koma í veg fyrir að efnahagsáfallið sem stríðinu fylgir bitni á ungu fólki og tekjulágu fólki hér á landi. Verðbólgan er nú 6,2% og hingað til er það fyrst og fremst húsnæði sem hefur hækkað um 25% á tveggja ára tímabili; önnur slík hækkunin á tímabili þessarar ríkisstjórnar sem drífur áfram verðbólguna. Vaxtahækkunarferli er farið hratt af stað. Við förum inn í þetta ástand með stóran hóp af ungu fólki sem er mjög skuldsett vegna óhóflegra verðhækkana á húsnæðismarkaðnum. Bensínlítrinn er kominn upp í 300 kr. Þetta er bara toppurinn á ísjakanum.

Við í Samfylkingunni og fulltrúar fleiri flokka í minni hlutanum teljum mikilvægt að ráðstöfunartekjur ákveðinna hópa rýrni ekki um of vegna þessarar kostnaðarkreppu. Ríkið er með tól til að dreifa svona álagi. Við höfum nú þegar lagt fram tillögur um mótvægisaðgerðir fyrir umrædd heimili. Styður hæstv. forsætisráðherra slíkar mótvægisaðgerðir?