152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

mótvægisaðgerðir gegn verðhækkunum.

[11:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni sömuleiðis kærlega fyrir yfirferð um efnahagsmál og kjarasamninga. Að sjálfsögðu skiptir máli hvernig tekst til í aðdraganda kjarasamninga og ég var að koma af fundi þjóðhagsráðs í morgun þar sem sitja einmitt aðilar vinnumarkaðarins og sá undirbúningur er löngu hafinn. Þar erum við m.a. að ræða afkomu þeirra sem lakast standa en húsnæðismálin hafa verið stóra áherslumálið því að þar geta stjórnvöld beitt sér þannig að það hafi bæði áhrif á þróun efnahagsmála en ekki síður á lífskjör fólks því að þetta er svo gríðarlega stór þáttur í því sem hver og einn þarf að leggja af mörkum. Þess vegna er átakshópurinn farinn af stað, þess vegna mun hann skila tillögum nú á vormánuðum af því að ég er alveg sammála hv. þingmanni að við höfum gert mjög margt á undanförnum árum, þessi ríkisstjórn, í því að koma af auknum krafti inn á húsnæðismarkaðinn í gegnum stofnframlögin, í gegnum hlutdeildarlánin. Það þarf að skoða hvernig við getum byggt ofan á það því að mínu viti er það algjörlega ljóst að húsnæðismál eru velferðarmál og það þarf aðkomu hins opinbera til að tryggja öllum þak yfir höfuðið. (Forseti hringir.) Þar standa ákveðnir hópar höllustum fæti eins og ég kom að í fyrra svari.