152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:23]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég finn mig knúinn til að taka til máls undir þessum lið. Nú gerist það hérna á þinginu trekk í trekk, þegar hæstv. forsætisráðherra er spurð um húsnæðismál og aðgerðir í þágu tekjulágra heimila og skuldugra heimila, að ráðherra vísar sérstaklega til þess að það sé fólkið á leigumarkaði sem hafi það verst og þar þurfi að bretta upp ermarnar og grípa til aðgerða. Svo er vísað til hóps um húsnæðismál sem sé að störfum o.s.frv. Þegar lífskjarasamningurinn var undirritaður 2019 þá gaf ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur launafólki ákveðin loforð sem lúta einmitt að þessum hópi, loforð um réttarbætur fyrir leigjendur, um ákveðnar skorður við skyndilegri hækkun leiguverðs, ákveðnar varnir á þessum sturlaða leigumarkaði. Það mál var lagt fram á síðasta kjörtímabili nánast nokkrum dögum, tveimur vikum í mesta lagi, fyrir þinglok. Það var ekki einu sinni mælt fyrir því (Forseti hringir.) og stóð augljóslega ekki til. Núna átti það að koma í janúar samkvæmt þingmálaskrá. (Forseti hringir.) Enn bólar ekkert á því þannig að ég vil spyrja, hæstv. forseti, hvernig þessu miði, hvort þetta mál komi fram á næstunni. (Forseti hringir.) Það væri auðvitað fróðlegt að heyra það líka frá fulltrúum ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða hvort þetta séu bara orðin tóm um leigjendur eða hvort staðið verði við þetta.