152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:28]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað: Aðgerða er þörf strax. Það var ekki ætlun mín hér áðan, og ég held að hæstv. forsætisráðherra hafi vitað það, að gera lítið úr þeim sem voru í þessum hópi sem um er rætt, en það varð ekkert úr aðgerðum, ekki neitt. Ég hef séð greiðsluseðil frá janúar 2020 fyrir leigu upp á 280.000 kr. Tveimur árum síðar, sama fjölskylda, sama hús: greiðsluseðill upp á 310.000 kr. Ef fram fer sem horfir þá hækkar leigan um 20.000 kr. í viðbót ofan á allt annað.

Það eru kjaraviðræður í haust. Ríkisstjórnin hefur það í hendi sér hvernig verkalýðshreyfingin mætir til leiks, hvort hún mætir vitandi það að eitthvað hafi verið gert eða hvort hún mætir og verði þá krafin um skynsemi ef ekkert hefur verið gert. Ég ætla að segja það að kröfur til að bæta fólki hverja einustu krónu af þessu eru skynsamlegar vegna þess að það er hrein heimska að fara fram á eitthvað sem dugar ekki fyrir útgjöldum. En ég fer fram á að ríkisstjórnin geri eitthvað sem allra fyrst.