152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:31]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á áðan lofaði ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur því, samhliða lífskjarasamningunum 2019, að hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, myndi standa fyrir lagabreytingum, það átti að gerast á síðasta kjörtímabili, til að verja leigjendur, þessa viðkvæmu hópa sem hæstv. forsætisráðherra er svo annt um, fyrir verðhækkunum á leigumarkaði. Það loforð var svikið á síðasta kjörtímabili. Þáverandi ráðherra lagði þetta frumvarp fram, ég er búinn að gá að því, tveimur dögum fyrir þinglok, nógu seint til að tryggja að það yrði ekki samþykkt. Eftir standa leigjendur, varnarlausir á gersamlega sturluðum leigumarkaði. Nú átti frumvarpið að vera komið fram. 31. janúar. Það er kominn 10. mars og frumvarpið sést hvergi og hæstv. forsætisráðherra sér ekki einu sinni ástæðu til að sitja hér í salnum (Forseti hringir.) meðan við tölum um þetta. Samt svarar hún öllum spurningum (Forseti hringir.) um kjaramál og húsnæðismál með því að vísa til þess að leigjendur eigi bágt. Hvað er gert fyrir þennan hóp? Ekki neitt. (Forseti hringir.) Þetta er allt í plati, allt í plati. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)