152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Þingmálaskrá ríkisstjórnar er plagg sem ágætt væri að tekið væri mark á. Mig langar að nefna eitt dæmi úr umhverfis- og samgöngunefnd. Þann 31. janúar stóð til að nefndin fengi til sín frumvarp um heildarendurskoðun fjarskiptalaga sem varðar gríðarlega hagsmuni eins og við sáum vel í Mílu-málinu. Það að núverandi ríkisstjórn hafi heykst á því að klára málið tvö síðustu þing, það er bara hættulegt. Það varðar ekki bara neytendamál heldur líka öryggismál og alls konar hagsmuni. Nú er hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra kominn næstum sex vikur fram yfir frest með það mál þannig að það er ekkert víst að við sjáum það mál klárast á þessu þingi heldur. Og vel að merkja, þetta er eitt af fimm málum í kafla hæstv. ráðherra og eitt af tveimur sem ekki hafa verið strikuð út og það eina sem hún á að vera búin að koma með. (Forseti hringir.) Eftir áramót hefur hæstv. ráðherra ekki skilað af sér eina málinu sem hún er komin á tíma með á þessu ári.