152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þessi innkoma hæstv. ráðherra er með því ósmekklegra sem ég hef séð býsna lengi. Hún hefur verið býsna yfirlýsingaglöð og meira að segja tekið undir með okkur í stjórnarandstöðunni að einhverju leyti en verið hrakin til baka af bæði formanni Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Hennar útspil hefur orðið til þess að Framsóknarflokkurinn hefur neyðst til að koma hingað upp í pontu og segja ósatt og það gerði hann í síðustu viku.

Staðreyndir tala sínu máli. Við erum með ótal gögn sem sýna stöðuna hér í Reykjavík og annars staðar. Fjórar af hverjum fimm íbúðum sem eru ætlaðar efnalitlu fólki eru byggðar hér á höfuðborgarsvæðinu sem er miklu hærra en hlutfallið ætti að vera á landsvísu. Framsóknarflokkurinn ætti kannski að skoða hvernig staðan er í Hafnarfirði. Hér sitja þingmenn sem voru í bæjarstjórn í Hafnarfirði og koma í viðtöl og tala um Reykjavík. Ég held þeir ættu kannski aðeins að svara fyrir Hafnarfjörð. [Hlátur í þingsal.] Og af því að hv. þingmaður ætlar að koma hingað upp ætla ég að skilja þessa töflu eftir hérna fyrir framan hann. [Lófatak og hlátrasköll í þingsal.]

(Forseti (BÁ): Hv. þingmenn eru áminntir um að það er ekki við hæfi að klappa í þingsal. Þingmenn verða aðeins að stilla sig.)