152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hér kom hæstv. ráðherra Lilja Alfreðsdóttir, og áður hæstv. forsætisráðherra, og talaði um hve hlutdeildarlánin hefðu virkað vel. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun var einmitt á fundi fjárlaganefndar í gær og sagði að þau hefðu ekki virkað mjög vel, alls ekki, af ýmsum ástæðum, góðum og slæmum. Hér er því ítrekað haldið fram að það sé einhvern veginn Reykjavíkurborg að kenna að það sé húsnæðisvandi. Í fyrsta lagi er spávandi. Spárnar voru einfaldlega rangar, sveitarfélögin vinna eftir þeim og það er mjög eðlilegt. Það er ekki hægt að kenna þeim um það. En það er hægt að miða við hvernig spárnar voru og hvernig þær voru framkvæmdar og þar stendur Reykjavík sig betur en spárnar gerðu ráð fyrir. Í Reykjavík búa 35% landsmanna. Reykjavík er að byggja 40% íbúða. Í nágrannasveitarfélögunum búa 28% landsmanna og þau eru að byggja 28% íbúða, (Forseti hringir.) ekki 35% eða eitthvað svoleiðis, ekki umfram sitt hlutfall af landsmönnum. (Forseti hringir.) Nei, Reykjavík er að gera það, umfram sitt hlutfall, virðulegi forseti.