152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:49]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Þótt það væri gaman að fara að ræða málefni höfuðborgarinnar og Reykjavíkur á það kannski ekki heima undir fundarstjórn forseta. Hér kom hv. þingmaður og spurði um stöðu á frumvarpi sem ég býst við að verði dreift á þinginu í dag og ef ekki í dag þá á morgun, mjög mikilvægu fjarskiptafrumvarpi sem hefur verið unnið að m.a. vegna athugasemda sem komu fram í umhverfis- og samgöngunefnd sem afgreiddi mál í febrúar sem þurfti þá að skoða. Beint var til nefndarinnar að skoða sérstaklega atriði sem varða neyðar- og öryggisfjarskipti. Frumvarpið er tilbúið og verður lagt fram á þingi, ef ekki í dag þá á morgun, þannig að hv. þingmaður þarf ekki að bíða lengur eftir því spennandi og mikilvæga frumvarpi sem ég bind miklar vonir við að klárist hratt og örugglega, sem skiptir miklu máli fyrir fjarskiptaöryggi, samkeppnishæfni og ekki síst netöryggi.

Svo minni ég hv. þingmenn góðfúslega á það að árangur ráðherra er ekki mældur í fjölda frumvarpa.