152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

orð forsætisráðherra um húsnæðismarkaðinn.

[11:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það var áhugavert að heyra að þingmanni Reykvíkinga og hæstv. ráðherra finnst ekki mikið til borgarinnar koma. Ég bý ekki í borginni en mér finnst frábært að sjá hvernig borgin er að þróast, hvernig þróunin er almennt í borginni t.d. varðandi skipulag en auðvitað er líka forvitnilegt að rýna í tölur, framlög og frammistöðu borgarinnar þegar við lítum til annarra sveitarfélaga, m.a. míns heimasveitarfélags, Hafnarfjarðar. Það hefur komið hérna fram að félagslegar íbúðir eru að þremur fjórðu eða 76% skipulagðar í Reykjavík. Samt búa bara 56% íbúa þar. Ég veit ekki hversu mörgum sinnum bæjarstjóri Hafnarfjarðar er búin að verðlauna þrjátíuþúsundasta íbúann í Hafnarfirði en við erum alltaf 29.600, svo náum við okkur aftur upp, en okkur hefur fækkað á kjörtímabilinu. Á því kjörtímabili sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa ráðið í Hafnarfirði hefur íbúum Hafnarfjarðar fækkað. Eru það öll ráðin og dáðin? (Gripið fram í.)Það er (Forseti hringir.) bara þannig að íbúum … (Gripið fram í.) Fjölgaði (Forseti hringir.) íbúum á kjörtímabilinu í Hafnarfirði? Nei, þeim fækkaði. Þetta eru bara tölur á blaði (Forseti hringir.) en tölur hafa aldrei verið sterkasta hlið Framsóknar.

(Forseti (BÁ): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumönnum tækifæri til að ljúka máli sínu og biður ræðumenn jafnframt að virða tímamörk.)