152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[12:32]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir ágætisyfirferð og mjög góða skýrslu og öllu starfsfólki ráðuneytisins fyrir vinnuna. Þetta er að mörgu leyti gott plagg en það er óheppilegt að skýrslan berist ekki hingað fyrr en tæpum sólarhring fyrir svo mikilvæga umræðu og ber hún það bersýnilega með sér að hún var búin til prentunar talsvert fyrr og lítið vikið að nýjustu vendingum vegna ólöglegrar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. En þetta er auðvitað skýrsla fyrir árið 2021 og nauðsynleg stöðuumræða en vekur þó upp þá hugsun að við þurfum líka að fara að ræða framtíðina. Þetta er auðvitað fyrirgefið að mestu af því að ráðherra hefur komið mjög skörulega fram í tengslum við innrásina og haldið bæði þinginu og utanríkismálanefnd vel upplýstri en umræðan hefði kannski orðið vandaðri ef við hefðum fengið þessa ágætu skýrslu fyrr.

Þetta er mikið skjal og nokkuð almenn yfirferð um einstök verkefni frekar en að hægt sé að greina skýra stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum. Ég ætla þó að dvelja við nokkur atriði sem standa okkur í Samfylkingunni a.m.k. næst hvað varðar utanríkismál landsins. Í fyrsta lagi langar mig að ræða aðeins þróunarsamvinnuna. Mann hryllir auðvitað við að lesa þær tölur sem birtast í skýrslunni varðandi fjölgun þeirra sem lifa í sárafátækt í heiminum. Það er mikilvægt að þingið og framkvæmdarvaldið auki meðvitund almennings um þróunarsamvinnu og framlag Íslands til hennar því að stór hluti af okkar alþjóðlegu skuldbindingum er einmitt að ráðast gegn fátækt í heiminum. Nýjustu vendingar sýna að það er auðvitað besta friðarvopnið. Það er ljóst að heimsfaraldur hefur snert viðkvæmustu hópana illilega. Sameinuðu þjóðirnar telja að um 274 milljónir þurfi mannúðaraðstoð og vernd árið 2022. Það er óljóst hvort þessar tölur taki til afleiðingar innrásarinnar í Úkraínu sem að mörgu leyti voru ófyrirsjáanlegar. En þótt verðmæti starfs sem innt er af hendi starfsfólks utanríkisþjónustu Íslands sé mikið og ótal góð verkefni þá getum við alveg lagt meira af mörkum. Mér finnst Ísland og ríkisstjórnin full metnaðarlaus þegar kemur að framlögum Íslands til þróunarsamvinnu því að raunin er sú að þó að krónutalan hækki stundum ár eftir ár er hlutfallið sem við greiðum af vergri þjóðarframleiðslu skammarlega lágt miðað við hin Norðurlöndin og í raun helmingi lægra en 0,7% markmið Sameinuðu þjóðanna sem við höfum lýst stuðningi við. Það gengur hægt að hækka þessa tölu og er bagalegt, ekki síst í ljósi þess að fram kom hjá hæstv. ráðherra áðan að þróunarsamvinna er eitt af mikilvægustu áherslumálum íslenskrar utanríkisþjónustu og við ættum að geta náð samkomulagi hér inni um að gera miklu betur, ekki síst þegar það er neyð á heimsvísu.

Í öðru lagi verður maður auðvitað að staldra við fólk á flótta. Í skýrslunni sést, eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, að 1% mannkyns er á flótta eða vergangi, um 84 milljónir manna, og þegar hafa 2 milljónir bæst við á síðustu dögum vegna átakanna í Úkraínu. Í skýrslunni er eilítið fjallað um samþættingu mannúðaraðstoðar og stuðnings við flóttafólk á erlendri grundu en ekki er fjallað um markmið varðandi móttöku og stuðning við umsækjendur um alþjóðlega vernd hér á landi. Þó að sú móttaka og aðstoð við flóttafólk á Íslandi sé ekki beinlínis á borði utanríkisráðherra mættu kannski skýrslur framtíðarinnar vera með einhverja skyggða dálka sem vísa yfir í markmið annarra ráðuneyta, það myndi kannski hjálpa okkur að lesa þar á milli. Mér sýnast blikur á lofti varðandi þá málaflokka og ekkert sérlega kræsilegar miðað við þær breytingar á útlendingalögum sem birtast enn einu sinni hér í þinginu.

Í þriðja lagi, sem er kannski það sem fólki er efst í huga þessa stundina, eru það öryggis- og varnarmál og innrásin í Úkraínu og þótt það sé eðlilega ekki mikið fjallað um það í skýrslu ráðherra er ekki annað hægt en að fjalla um þá þætti sem snúa að því og varnar- og öryggismál í ljósi gerbreyttrar heimsmyndar, sem ráðherra kom reyndar ágætlega inn á. Samfylkingin styður fulla þátttöku Íslands í víðtækum þvingunaraðgerðum gegn ólöglegri innrás rússneskra stjórnvalda og fagnar því að ákveðið er að taka á móti fjölda fólks frá Úkraínu á næstu misserum. En við þurfum líka að gera betur gagnvart nágrannalöndum Úkraínu og með borgaralegri hjálp á staðnum. Það er alveg ljóst að efnahagsþvinganir gagnvart Rússlandi munu hafa áhrif hér og krefjast efnahagslegra fórna. Það skiptir máli að við höfum úthald á meðan þær eru taldar nauðsynlegar. Ég tek jafnframt undir það með hæstv. ráðherra að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu er lykilatriði í íslenskri öryggisstefnu og mikilvægt að leggja varnarbandalaginu lið í borgaralegu starfi þess. Samstaða Atlantshafsríkjanna og annarra líkt þenkjandi ríkja hefur einfaldlega sjaldan verið mikilvægari en núna. Þá er auðvitað mjög mikilvægt atriði sem kemur fram að Ísland sé að undirbúa aðild að öndvegissetri bandalagsins um netöryggismál í Tallinn en það er ljóst að Ísland þarf að bæta sig verulega á því sviði og það er líklegt að okkur stafi ekki minnst ógn af þannig tegund af hernaði.

Eins og einnig kemur fram í skýrslunni þá er þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland það leiðarljós sem starfað er eftir í varnar- og öryggismálum. Þjóðaröryggisstefnan sem nú er í gildi var samþykkt árið 2016 og þar var ríkisstjórninni falið að fylgja stefnu sem tryggði sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna, vernd stjórnkerfis og grunnvirkja mannauðs samfélagsins. Samkvæmt lögum ber að endurskoða þjóðaröryggisstefnu landsins eigi sjaldnar en á fimm ára fresti og hæstv. forsætisráðherra, sem formaður þjóðaröryggisráðs, ber ábyrgð á því að það sé gert. Slík endurskoðun hefði þess vegna átt að eiga sér stað á síðasta ári. Það er auðvitað mjög brýnt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi og breyttrar heimsmyndar næstu áratugina, að ráðast í verkefnið sem fyrst. Um er að ræða hornstein íslenskrar þjóðar í varnar- og öryggismálum. Þá er nauðsynlegt að ræða á næstunni, á vettvangi Alþingis, samstarf okkar innan Atlantshafsbandalagsins, samvinnu okkar við Bandaríkin en einnig þátttöku í öryggis- og varnarsamstarfi Evrópusambandsins sem virðist vera að fá meira vægi í framtíðinni.

Þá langar mig í fjórða lagi að koma að Evrópusambandinu því þó að það blasi við að Ísland skipi sér í hóp með lýðræðisríkjum og fylki sér um alþjóðakerfi og alþjóðalög þá finnst mér ástæða á þessum tíma til að fjalla um mögulega aðild, fulla aðild, Íslands að Evrópusambandinu. Varla er minnst á Evrópusambandið í skýrslu ráðherra nema kannski með tilliti til viðskiptahagsmuna en það er þó svo miklu meira en bara viðskiptabandalag, það er ekki síst friðarbandalag. Vissulega tökum við upp meiri hluta af öllum reglum og tilskipunum frá ESB í gegnum EES-samninginn en við höfum auðvitað, eins og hér hefur margoft komið fram, allt of lítið um það að segja hvers eðlis þær eru og ráðum stundum illa við að laga þær að íslenskum hagsmunum. Aðild að Evrópusambandinu kæmi okkur í betri stöðu auk þess að vera aðgangur að stærri og stöðugri gjaldmiðli með lægra vaxtastigi en við erum vön. Það væri kannski ekki síst verðmætt núna þegar vaxtastig fer hækkandi hérlendis og er miklu hærra en í nágrannalöndum okkar. Byrði vegna húsnæðiskostnaðar eykst svo ekki sé talað um uppbyggingu á húsnæði sem þarf að ráðast í af miklu meiri myndarskap á næstu árum eins og kom fram hér undir liðnum um fundarstjórn forseta. Í stöðugum gjaldmiðli felst mikil lífskjarasókn fyrir heimilin í landinu, auk þess sem það myndi stórbæta rekstrarumhverfi fyrirtækja, ekki síst þeirra fyrirtækja sem við þurfum að efla, fyrirtæki á sviði nýsköpunar sem eru að selja mikið út og eru mjög háð því að gengið sé stöðugt. Eftir innrásina í Úkraínu er auk þess ljóst að Evrópusambandið mun taka að sér stóraukið hlutverk í öryggis- og varnarmálum og smáríki eins og Ísland á mjög mikið undir því að taka þátt í slíku samstarfi. Ég býst við að þær nýju tölur sem birtust í þjóðarpúlsi Gallups um stuðning við Evrópusambandið, þar sem meiri hluti þjóðarinnar virðist vera hlynntur því, lýsi því að land eins og Ísland vill eiga í fjölþjóðlegu samstarfi og skilur gildi þess, ekki síst á þeim tímum sem við lifum núna.

Í fimmta lagi er ágætlega fjallað um það með hvaða hætti samvinnu Norðurlanda er háttað og um norðurslóðir og það er gott að það er metnaður þar. Mig langar að ræða aðeins um þessa samvinnu Norðurlandaþjóða. Hún hefur líklega aldrei verið mikilvægari en núna og ég er ánægður með þá áherslu sem er lögð á hana. Það er auðvitað aukin áhersla á vestnorrænt samstarf og það sést vel í góðum nýútgefnum skýrslum um samskipti Íslands og Færeyja annars vegar og Íslands og Grænlands hins vegar. Þetta eru okkar næstu nágrannar og tengjast okkur sterkum böndum þó að þau gætu verið fastari og það er mikilvægt að við aukum samstarf eins og mögulegt er. Bent er á mikla möguleika í ágætri skýrslu sem skrifuð var af Grænlandsnefnd utanríkisráðherra, sem Össur Skarphéðinsson fór fyrir, og þar er bent á mjög marga frekari fleti samstarfs við nágranna okkar og það er mjög mikilvægt að fylgja því eftir á næstu árum. Það er gott að það kemur fram í skýrslunni að fyrirhugað sé að gera það, ekki síst í ljósi mikilvægis norðurslóða.

Í sjötta lagi aðeins um innflutnings- og útflutningstolla: Hæstv. ráðherra segir að Ísland sé lítið land og við höfum mikinn hag af opnum viðskiptum. Í skýrslu utanríkisráðherra er rætt um mikilvægi þess að felldir verði niður tollar á helstu útflutningsvörum þjóðarinnar og ég tek undir það. En mér þætti áhugavert að heyra frá ráðherra hvort henni þyki ekki sömuleiðis verðugt markmið að fella niður fleiri tolla á innfluttar vörur hingað til lands, a.m.k. þeirra vara sem eru ekki framleiddar á Íslandi og er ekki fyrirsjáanlegt að verði framleiddar hér vegna þess að það er mikilvægt neytendamál í ljósi hækkandi matvælaverðs nú um stundir. Tollar hækka í sjálfu sér alltaf verðið, þeir draga úr nýsköpun og bjaga markaðslögmálin og ég get ekki séð að það sé eitthvað sem samrýmist stefnu hæstv. ráðherra og flokks hennar.

Í sjöunda lagi er auðvitað mikilvægt að fjalla um framtíðaráskoranir og Ísland þarf að leggja aukna áherslu á að draga úr loftslagsbreytingum og eflingu samstarfs við önnur ríki um það. Nú er farið að sneyðast um tíma minn þannig að ég verð kannski að sleppa einhverju. En horfum á það að dönsk stjórnvöld hafa t.d. mótað græna utanríkismálastefnu og hér fyrir þinginu liggur mál frá hv. þingkonu Rósu Björk Brynjólfsdóttur um græna utanríkismálastefnu sem ég held að við ættum að skoða.

Samandregið þá þurfum við að auka framlög til þróunaraðstoðar frekar. Við þurfum að taka á móti fleira fólki á flótta og við þurfum að opna augun fyrir umheiminum og auka samstarf við önnur lönd.

Það kemur glöggt fram í yfirferð skýrslunnar hver helsta útflutningsvara okkar er. Þar er áherslan á lýðræði, mannréttindi, sjálfbærni og loftslagsaðgerðir í öndvegi og ég styð þessa nálgun og um þetta getum við náð fullkomnum samhljómi. Þess vegna spyr ég ráðherra, því að talað er um að í samskiptum við Kína sé fyrst og fremst verið að horfa til loftslagsaðgerða og endurnýjanlegrar orku, hvort við ættum ekki að gera slíkt líka í tvíhliða samningi við Bandaríkin sem er eitt stærsta og mikilvægasta viðskiptaríki okkar; horfa til tvíhliða samninga um loftslagsaðgerðir og endurnýjanlega orku.

Að lokum hvet ég hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir víðtæku mati á hagsmunum Íslands í ljósi breyttrar stöðu og þróunar. Þar ber hæst endurskoðun þjóðaröryggisstefnu, að tryggja áfram mikilvæga hagsmuni okkar innan NATO en ráðast einnig í kalt mat á kostum fullrar aðildar að Evrópusambandinu sem mun leika stærra hlutverk en áður í varnar- og öryggismálum. Ég minni á að hagsmunir okkar þar liggja ekki bara í viðskiptum heldur er ESB helsti kyndilberi lýðræðis, frelsis og mannréttinda í heiminum og það samræmist fullkomlega þeim áherslum sem ráðherra hefur talað fyrir og ríkisstjórnin.