152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[12:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þátttöku í þessum umræðum. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að neyðin er víða og aukning um 3 milljarða í þróunarsamvinnu á árinu mun nýtast til að svara mannúðarástandi en líka til að byggja upp í nýju samstarfslandi til framtíðar við Síerra Leóne, sem ég tel mikinn sóma að. Við erum yfir meðaltali aðildarríkja OECD DAC, í hlutfalli þróunarsamvinnuframlaga af vergum þjóðartekjum. En ég átta mig líka á því að við erum líka töluvert langt yfir meðaltali aðildarríkja þegar kemur að því hvar við erum stödd almennt, við erum ríkt samfélag. Nánast allur vöxtur á vettvangi utanríkisþjónustu síðastliðin ár hefur verið vegna þróunarsamvinnu þannig að við erum svo sannarlega að gefa í og gera betur og allir þeir fjármunir fara í mjög mikilvæg verkefni.

Varðandi varnarmál og Evrópusambandið sem hv. þingmaður kom inn á þá er Ísland í NATO og með varnarsamstarf við Bandaríkin en við erum líka í samvinnu á vettvangi JEF og NORDEFCO og Norðurhópsins, þannig að það er líka mikilvægt fyrir okkur öll að koma í veg fyrir tvíverknað og passa að við séum ekki að gera það sama á mörgum stöðum. Ég er sammála hv. þingmanni í því að íslenskt samfélag og íslenskur almenningur skilur mjög vel mikilvægi alþjóðasamstarfs. Það er til heilla fyrir alla umræðu, fyrir hagsmuni okkar og vilji íslensks almennings er að vera þjóð meðal þjóða. Það skiptir líka mjög miklu máli fyrir allt okkar starf og að haldið sé í þau gildi.