152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[12:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri ekki lítið úr þeirri hækkun sem er í þróunarsamvinnu. Ég er líka ánægður með með hvaða hætti þróunarsamvinna er að mörgu leyti á Íslandi, en ég held að við ættum að geta verið metnaðarfyllri vegna þess að við samþykkjum og styðjum markmið Sameinuðu þjóðanna um 0,7%. Svíar leggja t.d. 1%, minnir mig. Ég spyr þá ráðherra bara á móti hvort það kæmi til greina að við myndum, þá til lengri tíma, setja okkur tímasett markmið um þetta þannig að það næðist samhljómur á Alþingi og það væri ekki bitbein milli stjórnar og stjórnarandstöðu hverju sinni.

Varðandi varnar- og öryggismálin okkar. Jú, jú, við erum í NATO og við erum með tvíhliða samning við Bandaríkin og erum í ýmiss konar annars konar samstarfi. En slíkt er ekkert að þvælast hvert fyrir öðru og ég veit að önnur ríki eru bara í nákvæmlega sömu stöðu; Finnar og Svíar sem eru ekki innan NATO en þeir eiga samt tvíhliða samning við Bandaríkin og eru að trappa það upp og þeir eru líka mjög samhæfðir í viðbrögðum og öðru gagnvart NATO-ríkjunum. Þannig að ég held að veruleikinn sé bara að þeim mun meira alþjóðlegt samstarf og skuldbindingar sem við höfum, þeim mun meiri líkur eru á að við getum ráðist gegn þessum áskorunum sem bíða okkar. Þær eru í augnablikinu kannski á sviði öryggis- og varnarmála, en síðan eru þær auðvitað á sviði loftslagsmála til lengri framtíðar. Og svo þetta eilífðarverkefni, sem er að minnka ójöfnuð og minnka sárafátækt í heiminum því að á endanum held ég að það sé líklegasta leiðin til þess að ná fram friði. Þá getum við horft til Marshall-aðstoðar Bandaríkjamanna sem var mjög góð og gegndi einmitt því hlutverki að efla lýðræðið í Evrópu víða, og kannski gerðum við ekki alveg nógu vel þegar Sovétríkin hrundu. En við ættum auðvitað að tala fyrir þannig afstöðu.