152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[13:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir svarið. Ég tek heils hugar undir þetta og vona heitt og innilega að fólk fari inn á þessa heimasíðu og styðji þessi samtök. Það væri mjög þarft framlag vegna þess að ég veit að þessi félög munu beina þeim fjármunum beint til þeirra sem virkilega þurfa á því að halda. Maður óttast þó að í mörgum tilfellum sé þetta orðið of seint miðað við þær fréttir sem maður er að fá, þessar óhugnanlegu fréttir, um börn og ástand þeirra í þessu stríði. Ég held að það eigi því miður eftir að birtast slæmar sögur, en vonandi verður hægt að bjarga sem flestum. Á sama tíma dáist ég að úkraínsku þjóðinni, á sama tíma eru fatlaðir einstaklingar frá Úkraínu á Ólympíuleikum fatlaðra í Kína að vinna hver verðlaun á fætur öðrum. Ég bara dáist að þessu fólki að geta haldið einbeitingu en sennilega hefur það sett alla krafta og allt þol sitt í að berjast fyrir þessu og hugsað með sér að með því að leggja sig 100% fram og vinna verðlaun þarna þá sendi það skýr skilaboð um að úkraínska þjóðin muni aldrei gefast upp. Ef þessir einstaklingar gefast ekki upp þá er það alveg á hreinu að úkraínska þjóðin mun aldrei gefast upp. Þess vegna segi ég að það eina sem við getum gert og eigum að gera er að senda úkraínsku þjóðinni baráttukveðjur og senda skýr skilaboð um að við stöndum með þeim og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að hjálpa. Ég efast ekki um það að ríkisstjórnin og utanríkisráðherra muni gera það sem í hennar valdi stendur til að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda og koma því algjörlega til skila og þrýsta á Rússa að reyna einu sinni að sýna smá mannúð og taka utan um fólk og hjálpa því.