152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[13:19]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og einarða afstöðu hans með Atlantshafsbandalaginu. Ég vona að það eigi líka við um Flokk fólksins. Það er gott að heyra þetta frá þingmönnum, það er mikilvægt. Ég fór mjög rólega í það í útvarpsviðtali í vikunni hvernig sendiherra Rússlands á Íslandi hefur komið fram, og það er ekki til fyrirmyndar, ég orðaði það þannig og það er mjög varfærið orðalag. En ég hugsa að sendiherrar í Evrópu fái bara sína línu og eigi að koma henni á framfæri, gera það samt stundum með svolítið mismunandi hætti. Það er skelfilegt að fylgjast með atburðum í Mariupol. Ég er sammála því að hægt er að fordæma það sem fer fram þar. Ég vildi síðan aðeins koma inn á þetta atvik í Kópavoginum í gær. Ég var sjálfur í Vesturbænum hér í Reykjavík og það var greinilega ekki mikill hávaði þar miðað við það sem var í Kópavogi og Garðabæ þar sem vélarnar flugu yfir. Ég hélt satt að segja að verið væri að moka götuna hjá mér. Ég undraðist það reyndar líka vegna þess að það hefur ekki gerst í þrjár vikur, það hefur verið bölvuð ófærð þar, en það er aðeins farið að skána eftir að það fór að hlýna. En þannig var upplifunin í Vesturbænum. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ekki var verið að sprengja hljóðmúrinn yfir Kópavogi og Garðabæ í þessu aðflugi til Keflavíkur í gær. Mig grunar að menn hafi bara farið helst til of lágt yfir, en hljóðmúrinn var ekki sprengdur.