152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:02]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir andsvarið. Það er einmitt þetta með samfélagslegu ábyrgðina. Það er eitthvað sem við Íslendingar erum svo sannarlega búin að vera að reyna að innleiða í fyrirtækjakúltúr hér á landi og við erum kannski komin á þann stað að það er eiginlega bara orðið krafa þeirra sem versla við fyrirtæki að fyrirtækið sýni samfélagslega ábyrgð. Vegna þess að eitt af okkar áherslumálum í formennskunni í Evrópuráðinu er jafnrétti og staða kynjanna þá höfum við ýmislegt fram að færa á þeim vettvangi og það snýr ekki síður að samfélagslegri ábyrgð.

Varðandi viðveru á Keflavíkurflugvelli þá þakka ég svarið og er þess fullviss að það er verið að skoða alla þessa þætti frá öllum mögulegum sjónarhornum á þessum tímapunkti. Hvort það verði viðvarandi starfsemi eða hvort menn munu þétta að einhverju leyti loftrýmisgæslu vinaþjóða sem hingað koma á eftir að koma í ljós. En það myndi ekki koma mér á óvart ef svo væri, það myndi alls ekki koma mér á óvart. Við höfum auðvitað og höfðum hér varnarlið til 2006 af ástæðu. Eftir þann tíma hefur íslenska ríkið axlað meiri ábyrgð á öryggismálum sínum og það kann líka að vera gott fyrir okkur að gera betur þar.