152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:29]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Margir hv. þingmenn hafa rætt um það í dag hversu litla athygli utanríkismál hafi fengið hér um árabil, öryggis- og varnarmál þjóðarinnar. Ég vona að það breytist á komandi misserum og árum miðað við þá stöðu sem við búum við í dag. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði hér á undan mér og ég ætla að reyna að ræða norðurslóðamálin á eftir. Mig langaði að koma inn á þá vinnu sem talað er um í skýrslunni, sem er þessi nýja grunnstefna fyrir Atlantshafsbandalagið, NATO 2030, en stefnt er að því að hún verði samþykkt á leiðtogafundi bandalagsins í júní. Öllum ætti að vera ljóst að það er löngu kominn tími á að ný grunnstefna verði samþykkt fyrir Atlantshafsbandalagið í stað þeirrar sem hefur verið í gildi frá 2010. Í núgildandi stefnu er það stefnan að eiga í þéttu samstarfi við Rússland. Skiljanlega er það borin von að stefna bandalagsins geti byggst á slíku samstarfi. Fjölþáttaógnir, netárásir, þróun kjarnavopna og mikil framþróun í eldflaugatækni Rússa, sem við höfum lesið um í fréttum á undanförnum árum, eru m.a. þættir sem kalla eftir nýrri grunnstefnu fyrir NATO. Hér er mögulega um að ræða eina mikilvægustu grunnstefnu fyrir bandalagið sem skrifuð hefur verið frá því að Washington-samningurinn var undirritaður 4. apríl 1949. Árásarstríð rússneskra stjórnvalda í Úkraínu, þær hörmungar sem það hefur fært yfir úkraínsku þjóðina, mun örugglega hafa áhrif á nýja grunnstefnu. Það má einnig reikna með að áherslan verði meiri á loftslagsmál í nýrri stefnu. Loftslagsumræðan var tiltölulega léttvæg 2010 en hefur þróast gríðarlega mikið og er mikið rædd innan NATO í dag og NATO-þingsins.

Öryggis- og orkumál í heiminum, og ekki síst í Evrópu, munu að mínu viti hafa mikil áhrif á hina pólitísku umræðu á næstu árum enda þessi tvö málefni bundin sterkum böndum. Þetta tengist síðan aftur loftslagsmálunum og orkuskiptum og grænni orku. Mig grunar að þetta verði hreinlega meginumræðan í Evrópupólitíkinni næstu árin. Það er síðan gleðilegt, og kemur fram í skýrslunni og í máli hæstv. ráðherra, að nú erum við komin inn í öndvegissetur um fjölþáttaógnir í Helsinki sem farið var af stað með í gegnum fjárlögin fyrir tveimur árum, eða fyrir rúmu ári, þegar við samþykktum hér á Alþingi 230 milljónir, minnir mig, í þessi öndvegissetur, þar sem er þá miðað við gengið í Helsinki. Síðan sækjumst við eftir að komast inn í öndvegissetur um netöryggi í Tallinn.

Á undanförnum árum hefur ríkjum í Atlantshafsbandalaginu fjölgað og eru þau í dag 30 talsins. Síðast kom Norður-Makedónía inn, að mig minnir 2020. Með því að stækka bandalagið með fjölgun aðildarríkja er stefnt að því að byggja upp öryggi í okkar heimshluta. Íslenska áherslan í Atlantshafsbandalaginu hefur snúið mjög að jafnréttismálum á undanförnum árum. En betur má ef duga skal og kallað verður eftir því að áherslan á konur, frið og öryggi, sem er stefnan sem við höfum verið að fylgja, komi sterkt inn í grunnstefnu bandalagsins til 2030. Við Íslendingar höfum lagt mikla áherslu á það og það er gott.

Við höfum rætt innrás rússneskra stjórnvalda í Úkraínu mjög mikið undanfarnar tvær vikur en hún hefur gjörbreytt heimsmynd Evrópubúa og þá horfum við til næstu áratuga. Við höfum rætt hér miklar breytingar á stefnu Evrópusambandsins, Þýskalands, Svíþjóðar og Finnlands, breytingar sem hefðu verið óhugsandi fyrir ekki mörgum vikum. Ég minntist áðan á öryggisstefnu fyrir Evrópu og orkustefnu, þessi gríðarlega tengdu mál. Það er nú þannig að olíuöldin hefur ráðið för síðustu 150 árin í heiminum. Heimssagan hefur að mörgu leyti verið skrifuð í kringum olíuöldina. Það er jú alltaf orkan sem knýr samfélögin og hefur gríðarleg áhrif á heimspólitík.

Mig langaði síðan að koma aðeins inn á mikilvægi þess, sem mjög margir hafa rætt hér í dag, að endurskoða þjóðaröryggisstefnuna sem samþykkt var hér í þinginu í apríl 2016. Þegar hún var samþykkt var þess getið að hún yrði endurskoðuð innan fimm ára. Það er ótrúlega margt sem hefur gerst á undanförnum fáum árum. Það eru sex ár nú í apríl, í næsta mánuði, síðan hún var samþykkt hér í þinginu. Þar má nefna óveðrið í desember 2019, sem hafði mikil áhrif á flutningskerfi raforku og fjarskipti í landinu, jarðhræringar á Reykjanesskaga, stríð í Evrópu, fæðuöryggi, rof í aðfangakeðju, allt grundvallarmál fyrir íslenskt samfélag. Mér segir svo hugur að í endurskoðaðri þjóðaröryggisstefnu verði lögð enn meiri áhersla á þessi málefni. Í þjóðaröryggisstefnunni er að mestu unnið með 11 punkta og það eru punktar sem koma einmitt að fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum, punktur 7, að stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, sem mótuð er af almannavarna- og öryggismálaráði, sé hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og þar verði tekið mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.

Í mínum huga var þjóðaröryggisstefnan 2016 fyrsta skrefið í að hér yrði mótuð löggjöf um öryggismál þjóðarinnar, eins og við þekkjum hjá öllum nágrannaþjóðum okkar. Nánast í öllum löndum Evrópu er þjóðaröryggislöggjöf um helstu þætti sem stuðla að öryggi landa og þjóðríkja. Það er því geipilega mikilvægt atriði. Í skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál 2021 er víða farið en mig langaði að ræða sérstaklega um norðurslóðamálin og mikilvægi þeirra. Á síðasta ári var unnin norðurslóðastefna sem sá sem hér stendur tók m.a. þátt í og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir leiddi þá vinnu. Það var frábær stefna, mjög vel tímasett innkoma. Þar eru 20 punktar sem eru svona áhersluatriði. Kannski getur hæstv. ráðherra sagt okkur eitthvað af því hvar þingsályktunin stendur varðandi norðurslóðamálin og það að leiða inn til samþykktar stefnu um framkvæmdaáætlun. Gerðar voru fleiri skýrslur. Fyrrverandi þingmaður, Össur Skarphéðinsson, leiddi eina með mörgum spennandi hugmyndum um málefni Grænlands. Hann var með plagg hér varðandi Færeyjar og síðan var það viðskiptaskýrsla varðandi Grænland.

Í norðurslóðastefnunni sem unnin var kemur fram að Ísland eigi að taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um málefni norðurslóða á grundvelli þeirra gilda sem höfð hafa verið að leiðarljósi í íslenskri utanríkisstefnu, m.a. um frið, lýðræði, mannréttindi og jafnrétti. Annar punktur sem mér finnst mjög mikilvægur er að standa vörð um heilbrigði hafsins, þar á meðal að vinna gegn ógnum sem felast í súrnun sjávar og hvers kyns mengun í hafi. Við þurfum að vakta vel súrnun sjávar, hvort sem það er í íslenskri lögsögu eða á norðurslóðum, það er mikilvægt. Annar punktur er að leggja áherslu á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á norðurslóðum, þar á meðal hætta brennslu svartolíu í siglingum, að bæta aðgengi að endurnýjanlegum orkugjöfum og efla aðgerðir sem tryggja orkuskipti. Þetta eru mjög góðir efnislegir punktar sem hafa verið unnir en ég verð að minnast á tvo í viðbót sem hafa verið mér hugleiknir og það er að Ísland vinni að því að efla vöktun og tryggja betur öryggi í samgöngum á hafi og í lofti, m.a. með bættum fjarskiptum og aukinni útbreiðslu gervihnattakerfa, t.d. vegna gervihnattaleiðsögu. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt varðandi leit og björgun og bara almennt um fjarskipti á norðurslóðum og vöktun á samgöngum og séu gríðarlegir möguleikar, hvort sem er á Íslandi og þá sérstaklega á Grænlandi, tengdir því og auðvitað á öllum norðurslóðum.

Síðan er það þessi punktur að gæta öryggishagsmuna á norðurslóðum á borgaralegum forsendum, á grundvelli þjóðaröryggisstefnunnar, að vakta vel þróun í öryggismálum í samráði við önnur Norðurlönd og bandalagsríki okkar í NATO, mæla gegn hervæðingu og vinna markvisst að því að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu. Þetta er svolítið áhugaverður punktur miðað við hvernig staðan hefur verið að byggjast upp á undanförnum misserum en auðvitað eigum við að stefna að þessu.

Mig langaði síðan aðeins að ræða þróunarsamvinnuna sem er náttúrlega mikilvæg. Við höfum að mörgu leyti verið að vinna mjög gott verk, bæði í Rúanda og Úganda, og svo eru hugmyndir núna í Síerra Leóne, að koma inn þar. Fyrir tveimur og hálfu ári, fyrir u.þ.b. 30 mánuðum, fór ég í heimsókn með NATO-þinginu til Addis Ababa. Við hittum m.a. fulltrúa Afríkuráðsins og sendiherra. Mikið var rætt um það hversu erfitt ástandið er að mörgu leyti með lýðræðið í Afríku. Það voru þrjú til fjögur fyrirmyndarríki í Afríku sem menn horfðu mjög til varðandi framhaldið, það eru 52 lönd í Afríku, og Eþíópía var eitt af þeim, átti að vera fyrirmyndarríki hvað varðar lýðræði fyrir Afríku. Svo leið innan við eitt ár þangað til mjög alvarlegar aðstæður sköpuðust þar. En það sem maður lærði kannski í Afríkuferðinni er hversu mikillar mannfjölgunar er að vænta þar og það tengist okkur með svo mörgum hætti. Í dag búa um 1.200 milljónir í Afríku. Árið 2035, eftir 13 ár, er reiknað með að það verði 1.800 milljónir. Árið 2050 er reiknað með að 2,4 milljarðar manna búi í Afríku. Það eru loftslagsbreytingar, það eru farsóttir og uppskeran bregst. Menn hafa áhyggjur af því, og þess vegna þurfum við að halda áfram að byggja upp eins og hægt er í Afríku og gera sem best úr þessu, hve gríðarleg vandamál fylgja mannfjölguninni. Menn óttast náttúruhamfarir og að flóðbylgja af flóttafólki fari norður til Evrópu og í allar áttir. Og þá getum við verið að tala um hundruð milljóna manna sem færu á vergang. Við búumst jafnvel við að 10 milljónir Úkraínumanna gætu farið á vergang núna, orðið flóttamenn, þetta eru spár sem maður er farinn að lesa núna, en þarna erum við að tala um hundruð milljóna. Og þetta gæti orðið á næstu áratugum. Við verðum því að gera allt sem við getum til að aðstoða vini okkar í Afríku,

Það er af mörgu að taka í svona skýrslu og ég hef bara aðeins tæpt á þremur atriðum. Ég vil síðan fagna því rétt í lokin að 75% Íslendinga, samkvæmt nýrri könnun, fylgja NATO; 9% landsmanna vilja að Ísland dragi sig út úr NATO en 16% eru óákveðin. Þetta er nokkuð skýrt svo að ég komi aðeins inn í daginn í dag. Þetta er könnun sem ég sá í Kjarnanum í gærkvöldi, úr nýrri Gallup-könnun. Það verður ekki lengra farið í þessari ræðu.