152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:51]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég myndi ekki hafna því og ég held að það sé bara eðlilegt. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að skoða það. Nú þekki ég bara ekki hvernig það færi fram eins og hjá okkur sem sitjum í utanríkismálanefnd varðandi aðkomu að því að ræða við ráðuneytið um varnarsamninginn, eðli hans og nákvæmlega hvað stendur í honum. Almennt höfum við ekki aðgengi að nákvæmlega því sem stendur á bak við samninginn. Það er eitthvert ferli sem þyrfti að opna á ef við ættum að fara huga að því og þá þyrftum við bara að skoða það.

Mig langaði að bæta við það sem við ræddum áðan um borgaralega aðkomu Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu. Við höfum verið að gera mjög margt á Íslandi, auka starfsemina, sinna viðhaldi og byggja upp þjónustuna eins og loftvarnakerfið og ratsjárstöðvarnar. Það hefur verið mikið í gangi. Síðan erum við að fjölga borgaralegum sérfræðingum sem starfa fyrir NATO erlendis úr níu eða tíu upp í þrettán eða fjórtán á þessu ári. Það er stöðugt verið að auka við fjárveitingarnar sem snúa að þessu og ég held að það sé bara mjög gott. Ég ætla ekki að neita því að skoða þessi mál, allt þar á bak við, ef utanríkismálanefnd getur haft aðkomu að því, eða við sem sitjum þar.

Auðvitað er það hæstv. utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra landsins sem fer með þessi mál (Gripið fram í.) en ég er ekki andvígur því persónulega. Mér finnst það ekkert óeðlilegt eftir 70 ár. Ég þekki ekki þessa sögu nákvæmlega. Þetta hefur ekki verið til umræðu beint fyrr en við fórum að ræða þetta fyrir nokkrum dögum í tengslum við árásarstríðið á Úkraínu (Gripið fram í.) sem þetta fer allt á fleygiferð. Ég vil ítreka mikilvægi þess að við ræðum þessi mál sem mest á alla kanta hér í þingsal, hvort sem það eru utanríkismál eða (Forseti hringir.) varnar- og öryggismál almennt.