152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[14:53]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langaði að byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur fyrir stóra og yfirgripsmikla skýrslu. Þetta er svo sannarlega stór doðrantur og pappírinn mun betur nýttur en í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar þar sem var allt of mikið af myndum. Hér er alla vega fullt af texta og það eina sem ég myndi vilja fá að benda hæstv. ráðherra á er að það er dálítið stuttur tími til að lesa svona þykkan doðrant þegar við fáum hann seint daginn áður. En hvað um það.

Það er margt athyglisvert í þessari skýrslu sem er sérstaklega gott fyrir okkur sem komum ný inn á þing að fá yfirgripsmikla yfirsýn yfir allt það starf sem utanríkisþjónustan sinnir. Þó svo að stundum hafi mér fundist ég vera byrjaður að lesa ferðadagskrá forvera hæstv. ráðherra í embætti er margt sem leynist hérna inni sem er mjög athyglisvert. Ég held að eitt sem við þurfum að horfa á er að undanfarin ár hafa svo sannarlega sannað hversu mikilvægt er að hafa góða utanríkisþjónustu og hafa net fólks úti um allan heim sem aðstoðar og sinnir hlutum fyrir Ísland þegar hlutir koma upp. Sjálfur fékk ég að kynnast því hversu vel borgaraþjónustan studdi við okkur Íslendinga sem bjuggum erlendis þegar Covid geisaði. Við höfum líka séð núna á undanförnum mánuðum hvernig borgaraþjónustan hefur komið inn í tengslum við Afganistan og nú síðast Úkraínu.

Við megum heldur ekki gleyma því að þessi sama utanríkisþjónusta sinnir líka veigamiklu hlutverki þegar kosningar eru haldnar. Þar eru það sendiráðin og kjörræðismennirnir sem gegna mikilvægu hlutverki. Þar langar mig að hvetja hæstv. ráðherra til að leggja vinnu í það að auka net kjörræðismanna um heim allan, sér í lagi þó í Afríku þar sem oft er margra klukkutíma keyrsla fyrir fólk til að komast til næsta kjörrræðismanns eða jafnvel margra daga keyrsla.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga að hluti af utanríkisþjónustunni sinnir líka viðskiptatengslum úti um allan heim. Það er samt enn þá svolítið sá bragur á því sem maður les að helstu tengslin eru þar sem við erum að selja fiskinn. Við þurfum virkilega að opna á þau, hugsa sérstaklega um skapandi greinar og hugverkaiðnaðinn og hvar við þurfum að styðja við bakið á fyrirtækjum, einstaklingum, frumkvöðlum og öðrum sem eru að leita sér að viðskiptatengslum á því sviði.

Stór hluti þess sem ráðuneytið gerir, þó svo að það hafi dottið út úr ráðherraheitinu, er þróunarsamvinna. Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að sjá aukningu á milli ára og að við séum að gera það sem við verðum að vera að gera, sem er að styðja við þau lönd sem eru ekki komin eins langt í þróunarmálum og styðja þau sérstaklega með þeirri sérþekkingu sem við höfum. Í skýrslunni er fjallað um að um 500 millj. kr. hafi farið í gegnum félagasamtök en stór hluti þróunarsamvinnunnar fer enn þá í gegnum tvíhliða samstarf beint við önnur ríki eða beint við héraðsstjórnir í öðrum ríkjum. Fyrir okkur sem höfum lengi verið í þróunarsamvinnu er það öfug þróun miðað við það sem maður sér önnur lönd reyna að gera. Þau eru að reyna að fara meira í gegnum félagasamtök og minna í tvíhliða samvinnu. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða en tekur tíma að breyta og það er hægt að vinna í því.

Mig langar að taka undir það sem hv. þm. Jóhann Friðrik Friðriksson nefndi áðan, að það er líka mikilvægt að efla samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja. Þá þótti mér sérstaklega sorglegt að lesa að ekki hefðu verið neinar umsóknir um frumkvöðlafjármagn í tengslum við það að tengja frumkvöðla við þróunarstarf. Kannski þurfum við að vinna saman í því að bæta það.

Að lokum varðandi þróunarsamvinnuna. Við höfum verið að vinna okkur hægt og rólega upp í því hversu mörg prósent af vergri landsframleiðslu við veitum til þróunaraðstoðar. Á síðasta ári fór hún upp í 0,32%. Á þessu ári er markmiðið að hækka hana upp í 0,35%. Þegar kemur að því langar mig sérstaklega að brýna hæstv. ráðherra — af því að við vitum um það ástand sem ríkir þessa dagana og vikurnar og við vitum einnig að þúsundir Úkraínumanna munu líklega koma hingað til lands næstu vikur og mánuði — að við gleymum ekki þróunarsamvinnu. Að við tökum ekki of mikið af peningum úr henni, helst enga, fyrir þetta verkefni, heldur nýti hæstv. ráðherra sér þá samstöðu og stuðning sem er í þinginu við Úkraínumenn til að sækja aukið fjármagn til þeirra verka.

Þróunarsamvinnan horfir oft til lengri tíma en að sama skapi hafa loftslagsmálin og aukin átök orsakað það að við þurfum líka að beina sjónum að neyðaraðstoðinni. Þar erum við Íslendingar dugleg að setja peninga þegar þarf. Kannski eigum við ekki nógu mikla peninga til að setja í allt, okkur finnst okkar litla eina milljón dollara vera lítið hlutfall þegar verið er að biðja um 1,2 milljarða dollara. En ef rétt er farið með þá peninga og réttir aðilar valdir þá nýtast þeir peningar sérstaklega vel. Þar er einnig mikilvægt að gera, eins og hæstv. ráðherra hefur gert núna í Úkraínumálinu, að veita fjármagn strax og fljótt, því að þegar kemur að neyðaraðstoðinni þurfum við að gera hlutina fljótt.

Það eru líka aukin tækifæri þegar kemur að neyðaraðstoð og mannúðaraðstoð að auka samstarfið við aðrar Evrópuþjóðir á því sviði, svokallað almannavarnasamstarf Evrópusambandsins og, ef ég man rétt, 17 annarra þjóða, sem er nokkuð sem við Íslendingar höfum nýtt okkur en ekki endilega verið hluti af nógu mikið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að auka það samstarf því þó svo almannavarnir falli undir dómsmálaráðuneytið þá hefur sú skipting á einhvern hátt orsakað það að nýtingin hefur ekki verið nógu góð. Þar er hægt að senda mannskap á vettvang í gegnum þetta prógramm og sjálfur hef ég verið á því sem kallaðist í gamla daga skrá friðargæslunnar. Þetta heitir reyndar ekki lengur friðargæsla, alla vega finn ég ekki það orð í skýrslunni, en það væri hægt að nýta þann lista mun betur ef farið væri í að skoða þetta samstarf við ESB.

Ég sé að næstur á mælendaskrá er fyrrverandi utanríkisráðherra, núverandi umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra, og þar sem ég veit að núverandi utanríkisráðherra er fyrrverandi nýsköpunarráðherra þá langar mig að hvetja þessa þrjá hæstv. ráðherra, sem koma reyndar öll úr Sjálfstæðisflokknum, að vinna saman þegar kemur að því sem er margoft nefnt í þessari skýrslu. Þar er t.d. talað um að á sendiskrifstofum okkar víða um heim, ég hjó eftir því, væri eftirspurn eftir samstarfi í orkumálum, grænum lausnum og sjálfbærum fjárfestingum áberandi. Í skýrslunni er einnig talað um að stefna Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu skilgreinir sjálfbæra þróun sem leiðarljós og að loftslags- og umhverfismál séu grundvallarhagsmunamál fyrir Ísland.

Ef við tökum öll þessi fallegu orð er nefnilega málið að þarna felast stór tækifæri fyrir Ísland. Við erum þjóð sem notar sjálfbæra orku. Við erum þjóð þar sem nýsköpun á þessu sviði hefur verið sterk. Við erum þjóð sem fær hingað til lands fjölda nemenda víða að úr heiminum til að læra t.d. hvernig hægt er að nýta jarðvarma. Og ef hugsað er stórt og unnið saman þvert á þessi ráðuneyti þá tel ég að hægt sé að koma á fót á Íslandi alþjóðlegri þekkingar- og nýsköpunarmiðstöð á sviði loftslags- og umhverfismála, miðstöð sem byggi á þeim grunni sem t.d. er í GRÓ-setrunum, byggi á þeirri þekkingu sem hér er, byggi á því frábæra frumkvöðlasamfélagi sem hér er. Það þarf ekki að kosta svo mikinn pening að byggja upp svona þekkingar- og nýsköpunarmiðstöð vegna þess að fjármagnið á þessu sviði er ansi mikið úti um allan heim og það er hægt að laða stóran hluta af því fjármagni til Íslands og þar með ávaxta það litla fjármagn sem þarf til að setja í svona setur og fá það margfalt til baka á stuttum tíma.

Það er eflaust eitthvað í þessari skýrslu sem ég gæti eytt öðru korteri í að segja að þetta eða hitt mætti vera betra o.s.frv. eða rífast um það hvort við eigum að vera í ESB eða NATO eða eitthvað slíkt. Ég tel að það sé betri nýting á mínum tíma eftir lestur þessarar skýrslu að koma með hvatningarorð til hæstv. ráðherra um hvar við getum aukið við það góða starf sem við vinnum því að það er nóg af öðru fólki hér búið að benda á hvar við ættum ekki að vera að gera eitthvað.

Mig langar að ljúka með því að þakka fyrir, ekki bara skýrsluna heldur líka það virka samstarf sem hefur verið milli ráðherra og ráðuneytisins og utanríkismálanefndar sérstaklega á síðustu vikum en líka fyrir þann tíma. Það er þannig sem við vinnum saman.