152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[15:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið, það er nú ekki mikið um spurningar. En mig langar að segja: Já, það er mjög gott að við séum að prófa nýjar leiðir en við þurfum líka að passa að auka allar leiðirnar. Mín hvatning er sú að halda áfram að auka samstarfið við félagasamtökin hægt og rólega. Við erum búin að heyra það í þróunarsamvinnunefnd hversu vel hlutirnir færast þar áfram yfir í að gera rammasamninga og annað slíkt. Ég tel það mjög af hinu góða.

Við megum alls ekki gleyma hinum löndunum, og við gerðum það heldur ekki þegar Covid kom upp. Við gáfum peninga til Covid-samstarfsins en lokuðum ekki bara öllu í Malaví á meðan sem sum lönd gerðu því miður. Sum lönd tóku alla sína þróunarsamvinnu í sumum löndum til baka og sögðu bara: Afsakið, við ætlum að eyða öllum okkar peningum í að eiga við Covid.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að koma frekar til þingsins og sækja meiri peninga. Það er fjórði ráðherrann frá Sjálfstæðisflokknum — það þarf að semja við hann um það, en þingið er samhuga. Ég hvet hæstv. ráðherra til að nýta sér þann samhug.