152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[15:57]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir umræðuna. Mér fyrirgefst vonandi að fá að taka þátt í þessari umræðu en eðli málsins samkvæmt er þetta mér mikið hjartans mál. Vonandi áttar allur almenningur og hv. þingmenn sig á mikilvægi þessa málaflokks en umræðan hefur verið lítil en verður vonandi meiri.

Virðulegur forseti. Hér hafa menn í fullri alvöru komið fram og talað um aðild okkar að Evrópusambandinu með þeim hætti að það verður að leiðrétta þá umræðu. Fyrst aðeins vegna þess að menn hafa verið að tala um samkomulagið við Breta. Það voru reyndar Viðreisnarmenn, formaður Viðreisnar, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem töluðu fyrst um tækifærin sem væru í Brexit og allir sem hafa aðgang að Google frænda geta fundið það. Þá er ég að vísa í að Evrópusambandið hefur ekki viljað, þó að við séum partur af þeirra nánustu vinaþjóðum, ljá máls á því eða verið mjög tregt í taumi með það — og vonandi mun það breytast vegna þess að nú erum við að semja um aðra hluti við þá en að því vann ég alla mína tíð sem utanríkisráðherra — að veita okkur tollfrjálsan aðgang að markaði sínum fyrir sjávarafurðir. Þeir eru búnir að hleypa Kanadamönnum, Japönum og Mercosur-tollabandalaginu að með tollfrjálsan aðgang en ekki EES-ríkjunum.

Þá var talað um að tækifærin hefðu ekki verið nýtt í samningnum við Bretland. Fyrst skal tekið fram að viðskiptaráðherra Bretlands lagði sérstaka áherslu á það að samningurinn sem við náðum við Breta væri betri en sá sem Evrópusambandið væri með við þá. Samskipti okkar við Breta hafi ekki verið jafn náin og umfangsmikil í áratugi. Í ofanálag stóð okkur til boða samningur sem þýddi miklu meiri aðgang en við höfum núna að sjávarútvegsmarkaði Breta. Sömuleiðis var gert ráð fyrir innflutningi á landbúnaðarvörum, á 1.000 tonnum af mjólkurdufti og á lambakjöti. Og þó svo það væri einhver innflutningur á móti var tekið tillit til, virðulegi forseti, smæðar okkar. Ef við tökum þetta út frá þeim mælikvarða sem er kannski eðlilegt að gera þegar kemur mjólkurvörunum, sem hlutfall af heildargreiðslumarki, þá fengum við innflutning upp á 8,3% miðað við 1,1% af innflutningi. Ríkisstjórnin vildi hins vegar ekki fallast á þessa tillögu mína en þótt ég sé farinn úr ráðuneytinu efast ég ekki um þetta standi enn til boða. Þetta hefur þýtt mun betri aðgang fyrir okkur en fyrir samkeppnislönd okkar og hefur aukið samkeppnisforskot okkar. Það er því ekki rétt þegar menn halda því fram að tækifærin hafi ekki verið nýtt. Vegna þess að við erum með viðskiptafrelsi gátum við tekið ákvarðanir um að gera það ekki þó svo að ég hafi orðið undir þar í ríkisstjórninni.

Hér tala menn í fullri alvöru um að viðskiptafrelsi fylgi því að ganga í Evrópusambandið. Viðskiptafrelsi? Við afsölum okkur viðskiptafrelsinu þegar við göngum í Evrópusambandið, svo einfalt er það. Ef menn skoða skýrsluna um viðskiptamál, Áfram gakk, þá sést alveg skýrt að við erum með 90% tollfrelsi í okkar landi meðan Evrópusambandið er með 27%. Þegar menn skoða gögn sem voru gerð þegar við vorum í aðlögunarviðræðunum þá kom skýrt fram að ekki aðeins væri það þannig að 75% af tekjum og tollum færu inn í Evrópusambandið, því að þetta er sameiginlegt tollabandalag, heldur þyrfti í ofanálag að setja nýtt flóknara tollkerfi sem kostaði 30 milljónir evra. Bara til að setja það í eitthvert samhengi þá voru tollverðir eða starfsmenn tollsins á Íslandi á þeim tíma 168. Ef við berum okkur saman við þau lönd sem eru næst okkur í stærð, eins og Möltu, þá voru ekki 168 starfsmenn þar heldur 430. Í Lúxemborg 495. Og sömuleiðis ef við berum saman viðskiptanet okkar og Evrópusambandsins er augljóst að það er víðfeðmara.

Hér tala menn líka í fullri alvöru um að öryggi okkar sé betur borgið með því að ganga í Evrópusambandið. Virðulegi forseti. Við erum í góðum málum í öryggismálum vegna þess að við erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu og við erum með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin. Bara til að setja þetta í samhengi: Af varnarviðbúnaði Atlantshafsbandalagsins eru innan við 20% í Evrópusambandinu. Evrópusambandið mun aldrei verja okkur. Það liggur alveg fyrir ef slíkir alvarlegir atburðir myndu gerast.

Við getum líka nefnt orkumálin. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór ágætlega yfir að það sem menn sitja uppi með núna eru rangar ákvarðanir Evrópusambandsríkjanna. Evrópusambandið gerði ekkert í því þótt allir bentu á það að Evrópa væri orðin svo háð gasi, orku, frá Rússlandi, 41%. Í ofanálag ákváðu menn, eftir að Pútín var búinn að fara inn í Georgíu, búinn að fara á Krímskaga, að fara í verkefni sem heitir Nord Stream 2 sem átti að auka enn frekar viðskipti við Pútín-stjórnina, styrkja enn frekar efnahaginn hjá Pútín-stjórninni. Þetta er Evrópusambandið, virðulegur forseti. Ég þekki þetta mál ágætlega því að ég tók það upp á mjög mörgum fundum, þar sem ég gat. Við eigum ekki að líta til Evrópusambandsins þegar kemur að orkumálum. Ef við tölum um loftslagsmálin, af hverju er ég að fá gesti frá helstu fjölmiðlum heimsins til að taka viðtal við mig, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra? Það er ekki, virðulegur forseti, af því að ég er svo skemmtilegur eða neitt slíkt. Það hefur ekkert með meinta mannkosti mína eða galla að gera. Það er vegna þess að við erum svo framarlega í loftslagsmálum. Við erum búin að fara í gegnum tvö orkuskipti, rafvæðinguna og hitaveituvæðinguna. Var það Evrópusambandið sem leiddi það í upphafi síðustu aldar? Var það Evrópusambandið? — Já, virðulegi forseti, ég er að tala við hv. þingmann af því það eru allir aðrir, sýnist mér, ESB-sinnar horfnir úr salnum. Ég verð því bara að tala við þann eina sem er eftir. Ég var að vonast til að það yrðu aðeins fleiri. — Þannig að þessi rök standast engan veginn.

Menn tala um að þetta styrki efnahag okkar einnig. Bíddu, förum aðeins yfir það. Evrópa er miklu meira en bara þau lönd sem eru í tollabandalaginu. Er sérstaklega slæmt ástand í efnahagsmálum í þeim löndum sem eru fyrir utan Evrópusambandið? Er þetta eitthvað hræðilegt í Noregi? Er þetta eitthvað hræðilegt í Sviss? Er þetta eitthvað hræðilegt í Liechtenstein? Er þetta eitthvað hræðilegt í Bretlandi? Þessi rök halda ekki vatni.

Menn tala um að hlutirnir séu svo frjálslyndir í Evrópusambandinu. Virðulegur forseti, bara ef við tökum eitt dæmi þá hef ég, bæði innan lands og sömuleiðis á alþjóðlegum vettvangi, barist fyrir réttindum hinsegin fólks. Eigum við að fara yfir þau lönd sem við berum okkur saman við innan Evrópusambandsins hvað það varðar? Það eru ekki öll löndin eins og Norðurlöndin, því miður. Mér finnst alveg sjálfsagt að menn fari rétt með þótt þeir trúi því að það sé skynsamlegt að ganga í Evrópusambandið. Við missum viðskiptafrelsi, það verður minna viðskiptafrelsi ef við göngum í Evrópusambandið. Það er alveg klippt og skorið og staðreyndirnar tala sínu máli. Það skiptir engu máli þótt menn segi viðskiptafrelsi og ESB í sömu andránni þúsund sinnum, milljón sinnum, það breytir ekki þessum staðreyndum. Við afsölum okkur viðskiptafrelsinu sem við börðumst fyrir svo lengi og náðum sem betur fer. Okkur hefur alltaf vegnað vel þegar við erum með frelsi í viðskiptum. Það væri sorglegt ef við myndum einhvern tíma stíga það skref að afhenda það öðrum. Fyrir utan að það hefði náttúrlega slæm áhrif á íslenskan efnahag. Það er skýrt.

Virðulegi forseti. Það að nefna öryggis- og varnarmál í sömu andrá og Evrópusambandið — ja, það er sjálfsagt að taka þá umræðu en það er ekki gott fyrir þá sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið. Síðan mætti nefna margt fleira.

Hv. þingmenn kalla stundum eftir því að tala um Evrópusambandið og ég er alltaf til í það. Ég hef aðallega talað annars staðar vegna þess að ESB-sinnar hafa ekki verið tilbúnir í þá umræðu þegar á hólminn er komið. Ég var utanríkisráðherra í fimm ár og aldrei vildu hv. þingmenn sem töluðu um að ganga í Evrópusambandið taka þá umræðu við mig. (Forseti hringir.) Ég vona að það gerist alla vega eitthvað í þessari umræðu þó að ég sakni þess að hafa þingmenn sem eru fylgjandi Evrópusambandinu í salnum núna.