152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[16:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á því, eins og svo mörg hér í dag, að þakka fyrir þessa umræðu og nefna hvað það er gagnlegt að eiga reglulega almenna umræðu um utanríkismál í þessum sal. Ég vil rifja það upp sem ég ræddi einhvern tíma við hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hvort það væru ekki fleiri málasvið sem væri gott að taka þessum tökum, hvort loftslagsmálin væru ekki gott dæmi um málaflokk sem væri sniðugt að fá skýrslugjöf um í þessu formi alla vega einu sinni á ári.

Víða hefur verið farið í umræðunni í dag og mig langar bara að tæpa á einu mjög afmörkuðu atriði í skýrslu ráðherra sem er samt, að ég tel, eitt lykilatriði í þeirri deilu sem nú er í gangi við Rússa þar sem alþjóðasamfélagið er að reyna að þrýsta á Rússa að hætta árásum sínum á Úkraínu. Það flækir dálítið stöðuna að Rússland á kjarnavopn. Það er erfiðara að tala við ríki sem búa yfir slíkum gereyðingarvopnum á alþjóðasviðinu, erfiðara að þrýsta á þau, virðist vera.

Í skýrslu hæstv. ráðherra er kafli um afvopnunarmál þar sem er undirstrikað að afvopnun sé ein af lykilstoðum í þjóðaröryggisstefnu Íslands og að fyrir alþjóðaöryggi sé lykilatriði og forgangsmál að styrkja framkvæmd samnings um bann við útbreiðslu kjarnavopna og friðsamlega nýtingu kjarnorku, svokallaðan NPT-samning, sem er, verð ég að segja, frú forseti, ekki sá besti. Hann er búinn að vera til dálítið lengi. Það er vegna þess að þessi samningur er því marki brenndur að vera kannski fullmikið á forsendum kjarnorkuvopnaveldanna. Þess vegna hafa friðarsinnar lengi barist fyrir því að alþjóðasamfélagið komi sér saman um einhver verkfæri sem bíti betur til að draga úr þeirri freistingu ríkja sem þegar búa yfir kjarnavopnum að halda áfram að þróa þau eins og raunin hefur verið hjá kjarnorkuvopnaveldunum fimm sem eru aðilar að NPT-samningnum og stýra þar með rauða þræðinum í afvopnunarumræðu í heiminum. Þau eru náttúrlega á fullu að fjárfesta í uppfærslu á sínum vopnakerfum.

Hvað getur litla Ísland gert í þessu? Jú, við getum nýtt okkur það að vera ein rödd eins og öll önnur ríki, að hafa eina heila rödd á alþjóðasviðinu. Við erum eitt af ríkjum Sameinuðu þjóðanna og við erum því miður eitt af ríkjum NATO. En á þessum vettvangi getum við talað alveg jafn mikið og miklu stærri ríki. Við getum talað fyrir raunverulegri afvopnun sem snýst ekki bara um að ríkin sem eiga kjarnavopn í dag séu svolítið snyrtilegri með það heldur um endanlega útrýmingu þeirra af jarðarkúlunni, þ.e. útrýmingu vopnanna en ekki ríkjanna svo að það sé á hreinu.

Í þessu samhengi langar mig að nefna tvö þingmál sem mælt hefur verið fyrir og liggja í utanríkismálanefnd, annars vegar frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja, sem hv. þm. Jódís Skúladóttir er fyrsti flutningsmaður að, og hins vegar tillögu til þingsályktunar um undirritun og fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Ég leyfi mér að vera dálítið bjartsýnn um framgang þessara mála í utanríkismálanefnd í ljósi þess að meðal flutningsmanna beggja mála er hv. þm. Bjarni Jónsson en við búum svo vel að hann er formaður utanríkismálanefndar. Ég ætlaði að koma að síðarnefnda þingmálinu seinna en lýsa fyrst þeim áhyggjum sem ég hef af framgangi þessara mála vegna þess að þau hafa verið lögð fram áður.

Tillagan um að undirrita og fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum var t.d. til umfjöllunar hér á síðasta þingi. Þá barst umsögn frá utanríkisráðuneytinu þar sem kom fram að afstaða Íslands til kjarnavopna sé skýr og feli í sér að stefna skuli að kjarnavopnalausri veröld. Þar er jafnframt rifjað upp að í þjóðaröryggisstefnu sé að finna sérstakt ákvæði sem kveður á um að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga og þar stendur hnífurinn dálítið í kúnni. Ráðuneytið segir nefnilega síðan hvað það þýðir að taka tillit til þessara alþjóðlegu skuldbindinga. Ráðuneytið telur að samningurinn um bann við kjarnavopnum gangi í berhögg við skuldbindingar Íslands gagnvart Atlantshafsbandalaginu. Ég vona að hv. utanríkismálanefnd leggist vel yfir það hvort það sé virkilega svo að Ísland hafi ekki sjálfdæmi í þessum málum vegna þess að við höfum gengið í Atlantshafsbandalagið, eða hvort við getum sem ríki nýtt fullveldisrétt okkar til að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorkuvopnum ef við viljum eða nýtt rétt okkar til að undirrita og fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum, sem 59 ríki hafa gert og er þess vegna orðinn að fullgildum samningi. Það er kannski það sem hefur breyst frá því að utanríkisráðuneytið mótaði sér fyrst afstöðu til þess samnings að fyrir ári komst samningurinn yfir þau mörk að 50 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna höfðu fullgilt hann og þar með öðlaðist hann gildi. Þá var NATO búið að tapa slagnum hvað það varðar að kála þessum samningi sem hafði verið planið fram að þeim tímapunkti. Nú er samningurinn orðinn hlutur og þá er þessi harðlína frá hernaðarbandalaginu eitthvað sem ég er ekki viss um að íslensk stjórnvöld þurfi endilega að lepja upp lengur.

Svo er reyndar annað sem íslensk stjórnvöld geta gert, sem gengur ekki í berhögg við neinar alþjóðlegar skuldbindingar, og það er að taka alla vega samtalið. Það háttar nefnilega þannig til að fyrsti aðildarríkjafundur samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum verður haldinn nú í vor og aðalritari Sameinuðu þjóðanna hefur hvatt ríki til að taka þátt í þessum fyrsta fundi, hvort sem þau geri það sem fullgildir aðilar að samningnum eða sem áheyrnarfulltrúar.

Nú langar mig að freista þess hvort ég særi ráðherrann upp í andsvar til að segja mér hvort hún sé ekki til í að endurskoða þá afstöðu sem kom fram í skriflegu svari hér fyrr í vetur, um að Ísland hefði ekki í hyggju að senda áheyrnarfulltrúa á fundinn, sérstaklega í ljósi þess að t.d. Noregur og Þýskaland ætla að gera það. Noregur og Þýskaland hafa sömu þjóðréttarlegu skuldbindingar og Ísland gagnvart Atlantshafsbandalaginu en ætla engu að síður að mæta til fundar til að heyra hvað aðstandendur samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnavopnum hafa fram að færa og hvort hægt sé að leggja eitthvað af mörkum í gegnum það samstarf í átt að kjarnorkuvopnalausri veröld sem ekki er hægt á öðrum vettvangi, eins og t.d. varðandi NPT-samninginn sem Ísland hefur sett allan fókus á til þessa.