152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[16:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í mínum huga er grundvallaratriði hvað varðar afstöðu til samnings um allsherjarbann við kjarnorkuvopnum — ekkert þeirra ríkja sem eiga kjarnavopn er eða ætlar sér að verða aðili að samningnum þannig að hann mun varla skila tilætluðum árangri. Það er samstaða meðal aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins um að á meðan kjarnavopn fyrirfinnast í heiminum verða sameiginlegar varnir einungis tryggðar með fælingarmætti þeirra, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Kjarnorkuafvopnun verður aldrei raunhæf nema hún sé gagnkvæm og það er og hefur verið grundvallaratriði í afstöðu íslenskra stjórnvalda. Samtökin sem standa að samningnum nálgast mjög lýðræðisríki þar sem vera má að lýðræðisleg umræða geti haft áhrif á þjóðaröryggi með þeim hætti að ef við missum sjónar á því að afvopnunin sé ekki gagnkvæm geti það haft áhrif á þjóðaröryggi. Þrýstingurinn virðist minni á rússnesk og kínversk stjórnvöld og stjórnvöld í Norður-Kóreu sem hafa byggt upp vopnabúr sitt á undanförnum árum. Þar af leiðir að þótt markmiðið sé göfugt svari hann því ekki hvernig takast skuli á við útlagaríki eins og Norður-Kóreu sem margeflist í kjarnorkuvopnaáætlun sinni. Ég sé því ekki fyrir mér, eins og staðan er núna, að við munum breyta afstöðu okkar varðandi þátttöku eða sem áheyrnarfulltrúar vegna þess að við stöndum algerlega með og erum hluti af sýn og afstöðu Atlantshafsbandalagsins þegar kemur að þessum málum.