152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[16:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra nefndi í svari sínu samtök sem stæðu að samningnum og það er rétt að það voru samtökin ICAN sem börðust fyrir því að samningurinn myndi líta dagsins ljós og hlutu friðarverðlaun Nóbels fyrir. En nú eru það engin samtök sem standa að þessum samningi heldur Sameinuðu þjóðirnar. Þetta er orðinn samningur Sameinuðu þjóðanna og þar með þyngist nokkuð róður þeirra sem vilja standa gegn samningnum. Það er bara ekki hægt, hann er til. Og hvort hann muni eða muni ekki skila tilætluðum árangri — mér finnst það eiginlega ekki skipta máli, mér finnst að við þurfum að leggja öllu lið sem gæti skilað einhverjum árangri frekar en að leggja árar í bát fyrir fram. Ef ég væri stríðinn þá myndi ég benda á að fimmtugur NPT-samningurinn hefur ekki skilað meiri árangri en svo að kjarnorkuríkjum hefur fjölgað á síðustu 50 árum. Það eru ekki bara Rússar sem eru að endurnýja kjarnavopn sín heldur eru Bretar og Frakkar að leggja milljarða í það og Bandaríkjamenn stöðugt að endurnýja sín vopn. Þannig að: Er NPT-samningurinn að skila tilætluðum árangri ef við erum enn með kjarnavopn um allan heim 50 árum eftir að hann tók gildi? Það mætti alveg segja að svo væri ekki og þess vegna væri ástæða til að hjálpa öðrum átaksverkefnum sem er ætlað að ná álíka árangri.

Hæstv. ráðherra sagði í lokin að Ísland myndi ekki taka þátt, hvorki sem fullt aðildarríki né sem áheyrnarfulltrúi, vegna þess að Ísland stæði með og væri hluti af sameiginlegri sýn Atlantshafsbandalagsins. En það eru Noregur og Þýskaland líka og fulltrúar þeirra landa ætla að mæta. Ég veit ekki til annars en að þau standi líka með og séu hluti af Atlantshafsbandalaginu.