152. löggjafarþing — 50. fundur,  10. mars 2022.

utanríkis- og alþjóðamál 2021.

441. mál
[16:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því, af því ég hef verið viðstödd nokkuð margar umræður um utanríkismál og skýrslur utanríkisráðherra, að hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa setið hér allan tímann og tekið virkan þátt í samtali. Það er alveg ótrúlega dýrmætt nú á þessum tímum að við náum upp þessu samtali, samræðum á þessum lýðræðislega vettvangi sem við erum, um málaflokk sem hefur sjaldan verið jafn mikilvægur og nú, að við höfum einmitt augun á boltanum, þannig að ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir það.

Ég frétti að ég hefði misst af forvera hennar í starfi, því miður náði ég því ekki, ég var á fundi hér úti, en mér skilst að það hafi verið umræða um viðskiptafrelsi og ég hef heyrt þessa ræðu. Ég get mér til um það hvaða ræða þetta var, að það væri alls ekkert viðskiptafrelsi innan Evrópusambandsins, þetta væri bara tollabandalag, það vissu það allir. Ég giska á að það sé nokkurn veginn ræðan. Já, Evrópusambandið er tollabandalag, fyrst og fremst utan um landbúnaðarvörur. Það er langstærsti flokkurinn og ég hefði þurft að láta segja mér það tvisvar ef þingmaður og ráðherra hjá Sjálfstæðisflokknum væri á móti því að viðkomandi lönd væru að leggja tolla á landbúnað. Á móti kemur að það er fullkomið viðskiptafrelsi innan þessara 27 landa. Ekki nóg með það, það er oft sagt að við eigum sko sem fullvalda þjóð — ég hef heyrt fyrrum ráðherra segja þetta líka — að nota tækin okkar og gera fullt af fríverslunarsamningum. Hvernig nýtum við þau? Við höfum nýtt þau þannig að Ísland er aðili að 32 samningum. Þrjá höfum við gert sjálf ein og óstudd en allir hinir 29 eru gerðir í kringum fjölþjóðasamstarf eins og t.d. EFTA.

En hvernig er það hjá Evrópusambandinu, ef við værum þar, í því viðskiptafrelsi sem er innan Evrópusambandsins, meðal þeirra landa sem eru þar? Hvað hefur Evrópusambandið gert samninga við mörg lönd? 55 fríverslunarsamninga. Og það er verið að reyna að telja fólki trú um að það ríki ekkert viðskiptafrelsi. Hvers konar orðræða er þetta og orðhengilsháttur? Ég segi það enn og aftur: Það eru tækifæri sem forveri hæstv. utanríkisráðherra sagði að væru fyrst og fremst í tengslum við Brexit og fríverslunarsamninginn en þau birtast ekki í samningnum. Staða Íslands er eftir sem áður verri gagnvart Bretum en var fyrir Brexit. Það er ekki þessi frjálsa för fólks. Gert var hagsmunamat sem við höfum ekki enn fengið að sjá í utanríkismálanefnd um að fórna ákveðnum afurðum í sjávarútvegi fyrir það að vera með tollverndina áfram, og jafnvel hærri og meiri í landbúnaði, af því að Bretar vildu flytja meira inn af landbúnaðarvörum. Það var sagt nei og á móti var sjávarútvegi fórnað, það þarf bara að tala hreint út um þetta.

Ég segi eftir þessa umræðu í dag um utanríkismál að þá er ég hrædd um að samsetning ríkisstjórnarinnar hamli því að við förum í gegnum hið nauðsynlega hagsmunamat sem við þurfum á að halda núna varðandi öryggis- og varnarmál og utanríkismál. Staðan er öll önnur í heiminum í dag en var þegar stjórnarsáttmálinn var gerður, þessi skammsýni stjórnarsáttmáli, sem afgreiðir bara Evrópusambandið út af borðinu án þess að það hafi verið látið fara fram mat. Svo leyfa menn sér að gera það þegar við erum fullir aðilar í 30 ár að innri markaði Evrópusambandsins.

Hornsteinar íslenskrar utanríkisstefnu eru annars vegar EES-samningurinn og hins vegar, í varnar- og öryggismálum, NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin. Og er það þannig að við eigum ekki að fara í að meta hagsmuni okkar þannig að við reynum að átta okkur á hvar þeim sé best borgið fyrir okkur á næstu árum og áratugum? Þessi moðsuða sem við fáum að heyra og þessi óskýrleiki í skilaboðum frá ríkisstjórninni og stjórnvöldum, þegar kemur að utanríkis- og varnarmálum, er hættulegur. Hann er sérstaklega hættulegur núna á þessum tímum þegar við þurfum að ræða um öryggi okkar og við þurfum að verja landið okkar og beita til þess öllum tiltækum ráðum, þar með talið að meta hvernig við getum orðið enn öflugri innan NATO, þar með talið að meta hvernig við getum virkjað varnarsamninginn þannig að hann verji okkur alla leið og við séum með á hreinu hvernig við verðum varin á erfiðum tímum og síðast en ekki síst hvort hagsmunum okkar, öryggi, viðskiptafrelsi og vörnum sé ekki betur borgið innan Evrópusambandsins sem er núna að taka æ meira til sín á þessu sviði. Er þá ekki betra, enn og aftur, virðulegi forseti, að eiga sæti við borðið eins og við eigum í NATO og hefur skilað okkur góðum árangri? (Forseti hringir.) Ég tel tvímælalaust að við eigum að segja það sama þegar kemur að Evrópusambandinu. Við eigum að fá sæti við borðið og treysta þjóðinni til að fara með okkur í þá vegferð.