152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

um fundarstjórn.

[15:20]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Mér er náttúrlega sérstaklega umhugað um málefni heimilanna og stöðu þeirra á þessum erfiðu tímum í 6,2% verðbólgu. Erlendar þjóðir taka á málefnum heimilanna en ekki við. Það sem skilur okkur frá öllum öðrum þjóðum er bölvuð verðtryggingin. Áhrif verðbólgunnar á Íslandi verða miklu meiri á heimilin hér á landi en nokkurn tímann áhrif verðbólgu á heimili úti í Evrópu þar sem engin verðtrygging er, eins og á náttúrlega aldrei að vera hjá siðmenntuðum þjóðum. Áhrif þessa munu kannski ekki koma fram strax á þessu ári en þau munu koma fram fljótlega eftir það. Það eitt að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni, sem ég mælti fyrir í síðustu viku fyrir hönd Ingu Sæland, myndi breyta alveg gríðarlega miklu, en það er ekki einu sinni hægt að gera það. Heimilin eiga greinilega bara að fá að sigla sinn sjó og láta skeika að sköpuðu, alveg eins og gert var eftir bankahrunið 2008. Það endaði með skelfingu sem margir hafa ekki enn og munu jafnvel aldrei ná sér af að fullu. Það má ekki endurtaka sig.