152. löggjafarþing — 51. fundur,  14. mars 2022.

orku- og loftslagmál.

[15:40]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hæstv. umhverfisráðherra gaf nýlega út skýrslu og úttekt um stöðu og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum. Markmiðið var að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsinga á sviði orkumála á aðgengilegu formi til upplýsingar fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning. En faglegu sjónarmiðin náðu ekki lengra en svo að höfundar grænbókarinnar leggja ekki neitt sjálfstætt mat á sviðsmyndir heldur eru sviðsmyndir skýrslunnar uppsettar af orkufyrirtækjum sem skiluðu inn útreiknuðum sviðsmyndum sem voru, afsakið slettuna, forseti, bara copypeistaðar inn í skýrsluna. Formaður hópsins sem vann grænbókina talar um að á næstu 18 árum þurfi að reisa ígildi fimm Kárahnjúkavirkjana á Íslandi. Stefnan er að stækka hagkerfið á ógnarhraða, keyra upp hagvöxtinn samhliða orkuskiptum. Á meðan aðrar þjóðir heims eru að breyta neysluvenjum, umbylta samgöngukerfum og aðlaga samfélag sitt að loftslagsbreytingum ætla íslensk stjórnvöld að nýta sér ferðina og nota orkuskiptin til að stækka stóriðjuna og keyra upp hagvöxtinn. Rödd náttúruverndar var í mýflugumynd við gerð skýrslunnar enda fengu náttúruverndarsamtök nánast engan tíma til að bregðast við, sem er mjög kunnuglegt stef, gefa þeim bara nægilega lítinn tíma til að bregðast við.

Um hvað snýst seta hæstv. ráðherra í umhverfisráðuneytinu, ég bara spyr? Það er augljóslega ekki að vera rödd náttúruverndar. Hvaða arfleifð sá hæstv. ráðherra fyrir sér að skilja eftir sig þegar hann fer úr embætti? Ætlar hann að verða ráðherrann sem botnvirkjaði Ísland í þágu orkufyrirtækjanna og stóriðjunnar og nota loftslagsmálin sem skálkaskjól fyrir það? Eða ætlar ráðherra að gera eitthvað aðeins stærra?